Elísa tók þátt í sinni fyrstu fegurðarsamkeppni árið 2015. Í dag lifir hún og hrærist í bransanum. Hún er sviðshöfundur Ungfrú Ísland og tók við sem aðstoðarframkvæmdastjóri keppninnar í nóvember í fyrra.
Elísa keppti í – það sem er núna kallað – „gamla“ Ungfrú Ísland árið 2015. Ári síðar byrjaði athafnakonan Manuela Ósk Harðardóttir með Miss Universe Iceland. Fyrir nokkrum árum tók sú keppni upp nafnið „Ungfrú Ísland.“
„Ég keppti í Miss Universe Iceland árin 2016, 2017 og 2018. Vann aldrei og lét það ekki stoppa mig,“ segir hún brosandi.
Árið 2019 tók hún pásu frá keppnum hérlendis en reyndi fyrir sér erlendis.
„Mig langaði að fá smá meiri reynslu, þannig ég fór út að keppa á eigin vegum. Fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því en það eru til svo margar keppnir í heiminum, stórar og litlar. Þetta er svo stórt batterí,“ segir hún.
Hún fór í tvær minni keppnir erlendis sem fulltrúi Íslands.
Árið 2021 var Elísa 27 ára. „Á þeim tíma þá máttirðu bara keppa hérna á Íslandi til 28 ára. Þá hugsaði ég: Ókei, tíminn minn er að klárast, ætti ég að prófa þetta einu sinni enn.“ Ég ákvað að gera það og þá loksins tókst mér að vinna.“
Elísa var valin Miss Universe Iceland 2021. Hún var ekki að búast við því að vinna en fór inn í ferlið með jákvætt hugarfar – að það sem ætti að gerast myndi gerast – og segir að það hafi breytt öllu.
Síðar sama ár fór Elísa til Ísraels að keppa í Miss Universe. „Eftir það þá réðu þau mig sem sviðshöfund fyrir Ungfrú Ísland og hef verið þar síðan en nú er ég líka orðin aðstoðarframkvæmdarstjóri.“
Elísa segist hafa elskað allt bleikt og glimmer frá unga aldri. Með aldrinum fór það að verða skotspónn stríðni.
„Ég átti mjög góða æsku en mér var strítt fyrir að vera of mikil prinsessa,“ segir hún. Þegar hún var yngri skipti hafði það engin áhrif á hana en álit annarra fór að skipta meira máli á unglingsárunum.
„Það er þannig eiginlega hjá flestum, maður pælir svo mikið í hvað er asnalegt og hvað ekki. Ég þurfti alveg að tóna mig niður, fannst mér […] Oft fær maður spurningu upp á sviði: „Hvað myndirðu segja við yngri útgáfuna af þér, ef þú gætir gefið eitt ráð?“ Og þegar ég pæli í því þá er það: Að hætta að hugsa hvað öðrum finnst um þig og bara lifa lífinu þínu fyrir þig. Eins dramatískt og það hljómar. Lífið er svo stutt, af hverju er ég þá ekki að fara eftir því,“ segir hún.
Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan.
View this post on Instagram
„Ég fékk smá svona breakthrough, ef ég má sletta, og ákvað að vera bara alveg sama. En það var kafli sem manni fannst maður vera eitthvað asnalegur eða „of mikið“, of mikill persónuleiki, of extra. Ég fór aðeins að tóna mig niður en svo um það leyti sem ég byrja að keppa var ég líka í mjög slæmu sambandi þannig það spilaði alveg inn í líka.“
Elísa segir að það hafi hjálpað henni að taka þátt í fegurðarssamkeppnum. „Þegar ég kom út úr sambandinu var ég ekki á góðum stað andlega. [Sumir halda kannski að þessar keppnir myndu draga] mig niður persónulega og vera slæmar fyrir mína andlegu heilsu, en það var akkúrat öfugt. Ég fékk svo mikla sjálfstyrkingu og sjálftraust út af þessum keppnum. Ég hugsaði: „Þetta er það sem gerir mig hamingjusama, þetta er það sem er að hjálpa mér andlega.“ Þær gera það í alvörunni, þessar keppnir, ég held að flestar sem hafa keppt áður geti verið sammála mér í því, hvað þetta er mikil styrking andlega fyrir mann. Þannig ég hélt áfram.“
View this post on Instagram
TW: Umræða um sjálfsvíg
Geðheilsa er kært málefni fyrir Elísu Gróu og vakti hún athygli á Píeta-samtökunum árið sem hún sinnti skyldum sínum sem Ungfrú Ísland (Miss Universe Iceland). En málefnið er einnig persónulegt fyrir hana.
„Ég á náinn ættingja sem féll fyrir eigin hendi,“ segir Elísa. „Og þegar ég var á þessum tímapunkti í lífi mínu fyrir einhverjum árum þá var ég sjálf með þessar hugsanir. Þannig þetta er rosalega persónulegt fyrir mig og þegar ég fór svo að keppa áfram og þegar ég vann þá hugsaði ég að mig langaði að nýta þetta platform í eitthvað, til að tala um eitthvað.“
Elísa segir framkvæmdarstjórnina hvetja keppendur og sigurvegara til að nýta vettvanginn og láta gott af sér leiða. „Mér fannst mikilvægt að ræða um forvarnir gegn sjálfsvígum og mér finnst Píeta samtökin mjög mikilvæg. Ég er búin að styrkja þau sjálf í mörg ár. Þau hefðu örugglega getað hjálpað mér á sínum tíma en voru ekki stofnuð fyrr en árið 2016. Þetta er svo rosalega mikilvægt starf, ég held að þetta hefði hjálpað mér mjög mikið.“
Elísa ítrekar mikilvægi samtakanna í þættinum. „Þetta er ekki bara fyrir fólk sem er í sjálfsvígs- eða sjálfskaðahættu. Þetta er líka fyrir aðstandendur. Þetta er gjaldfrjáls þjónusta þannig samtökin þurfa á styrkjum að halda. Þannig árið sem ég var með titilinn langaði mig að vekja athygli á þessu og hef gert það allar götur síðan,“ segir hún.
Aðspurð hvað hafi komið henni upp úr þessum dimma dal segir Elísa: „Fjölskylda og vinir. Og að fá aðstoð og takast á við þetta, ekki bara alltaf halda að maður sé einhver aumingi, heldur takast á við þetta. Þá komst ég að því að ég er með kvíða, eins og svo margir,“ segir hún.
„En það er svo margt sem spilar inn í, ég var búin að lenda í áföllum […] Stuðningur frá fjölskyldu, vinum og aðstoð, fagleg aðstoð að hjálpa manni í gegnum þetta.“
Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.
Fylgdu Elísu Gróu á Instagram og TikTok.
Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.