Ein ágengasta spurning í gjörvöllu fjármálakerfi heimsins er hver sé faðir Bitcoin-rafmyntarinnar og gengur undir dulnefninu Satoshi Nakamoto. Ástæðan er ekki síst sú að í rafrænum veskjum sem talin eru vera í eigu Nakamoto leynast Bitcoin-rafmyntir fyrir allt að 69 milljarða bandaríkja dali. Það myndi gera Nakamoto að 20 ríkasta manni heims.
Það sem gerir Bitcoin-rafmyntina svo eftirsótta er sú staðreynd að aðeins eru til 21 milljón eininga en til samanburðar er Nakamoto sagður eiga um 1,1 milljón rafmynta.
Auðæfin hafa hins vegar legið óhreyfð nánast frá því að Bitcoin fór í loftið sem hefur gert það verkum að margir telja að manneskjan á bak við dulnefnið sé látin. Það myndi aö öllum líkindum þýða að rafmyntarauðæfin séu glötuð að eilífu.
En ýmsar kenningar eru samt á lofti. Í nýrri heimildarmynd úr smiðju HBO, sem ber heitið Money Electric: The Bitcoin Mystery, er fullyrt að faðir rafmyntarinnar sé kanadíski rafmyntasérfræðingurinn Peter Todd.
Ýmsar vísbendingar eru dregnar til. Til að mynda er póstur frá spjallborði í árdaga Bitcoin-rafmyntarinnar sem Todd skrifar en virðist vera beint framhald af pósti sem Nakamoto skrifaði. Þá segir Todd á öðrum stað að hann hafi eytt stórum hluta af rafmyntinni en sú kenning er lífsseig um að Nakamoto hafi viljandi sankað að sér öllum þessum myntum og gert þau óaðgengileg, líklega til að gera Bitcoin-myntirnar enn færri og þar með eftirsóttari.
Kvikmyndagerðamennirnir á bakvið heimildmyndina ganga á Todd og spyrja hann út í málið en rafmyntasérfræðingurinn hlær og neitar því staðfastlega að vera Nakamoto.
Kenningin hefur hins vegar haft talsverð áhrif á Todd því hann er í kjölfar myndarinnar sagður hafa þurft að flýja heimilið sitt því hann var orðinn skotmark glæpahópa sem höfðu augastað á meintum auðæfum hans.