Þann 10. október var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur yfir manni sem ákærður var fyrir sifskaparbrot. Það felur, nánar til tekið, í sér brot gegn 193. grein almennra hegningarlaga, sem er svohljóðandi:
„Hver, sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðilja valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því, að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.“
Foreldrarnir höfðu skilið en faðirinn var ákærður fyrir að hafa neitað að afhenda móðurinni dótturina eftir að hún hafði dvalist á heimili hans samkvæmt samkomulagi. Stóð þessi tálmun yfir frá miðjum maí 2020 til loka nóvember 2021. Fólkið fór með sameiginlega forsjá barnsins hluta tímabilsins en dóttirin átti lögheimili hjá móðurinni. Frá 24. mars 2021 fór móðirin ein með forsjána.
Faðirinn bar fyrir sig að móðirin hefði beitt stúlkuna ofbeldi og stúlkan þyrði ekki til hennar. Taldi hann sig beita neyðarrétti. Í viðtölum félagsráðgjafa við barnið voru þessar ásakanir staðfestar. Ráðgjafarnir töldu hins vegar tilvikin vera ekki það stórvægileg og um langt liðið frá þeim til að þau réttlættu aðskilnað við móðurina. Einnig höfðu þeir orð á því að frásögn stúlkunnar af þessum atvikum væri með fullorðinslegu orðfæri, líkt og hún væri að þylja texta sem hún hefði lært, og sýndi hún ekki mikil tilfinningaviðbrögð. Var því grunur um innrætingu.
Í texta dómsins eru raktar ítarlega deilur foreldrannaum forsjá barnsins og afskipti félagsamálayfirvalda af þeim.
Það var niðurstaða dómsins að faðirinn var sakfelldur fyrir sifskaparbrot og dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Einnig var hann dæmdur til að greiða móður barnsins 1,5 milljónir króna í skaða- og miskabætur.
Dóminn má lesa hér.