Hjónin Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir eru forviða á sniðgöngu Valgeirs á tveimur viðburðum í mánuðinum sem þau telja að hann hefði átt að hafa aðkomu að. Annars vegar er það tónlistarhátíð á Eyrarbakka og hins vegar er það heiðurstónleikar Spilverks þjóðanna í Hörpu.
„Okkur finnst þetta út í hött. Það er eins og maðurinn sé dáinn,“ segir Ásta. Þrátt fyrir að hafa átt stærstan þátt í tónlistarsögu Eyrarbakka undanfarin ár þá hafi Valgeir ekki einu sinni verið látinn vita af tónlistarhátíðinni Tónlistin á Bakkanum, sem fram fer núna um helgina.
Um er að ræða hátíð á vegum Söngfjelagsins í samstarfi við Leikfélag Eyrarbakka, kirkjukór Eyrarbakkakirkju og Byggðasafn Árnesinga.
Auk tónlistaratriða í kirkjunni og hinu þekkta Húsi á Eyrarbakka er dagskrá í safninu með yfirskriftina: Er Bakkinn kannski vagga íslenskrar tónlistar? Fjallað er um frumkvöðla íslensks tónlistarlífs á Eyrarbakka og Stokkseyri á árum áður.
Ásta segir undarlegt að Valgeir sé ekki nefndur til sögunnar þegar verið sé að gera grein fyrir tónskáldum á svæðinu. Þau hjónin hafi flutt til þorpsins fyrir 11 árum vegna tónlistarlegrar tengingar við hennar fjölskyldu. Það voru langalanga afi og amma Ástu þau Guðmundur og Sylvía Thorgrímsen, sem fluttu í Húsið árið 1847 og Sylvía flutti með sér fyrsta píanóið og tónlist evrópsku meistaranna.
Í Bakkastofu hafa Valgeir og Ásta tekið á móti gestum í hverri viku, sagt þeim frá sögu Eyrarbakka, spilað og sungið tónlist. Ásta segir enga spurningu um að Eyrarbakki sé vagga tónlistar og allir á staðnum viti af þeirra starfi.
„Okkar hvati til að koma hingað og setjast að var tónlistin,“ segir Ásta. „Valgeir hefur samið ótal verka eftir að við fluttum hingað og eitt af þeim er einmitt um Húsið, Húsið hefur sál. Svo eru haldnir hér hátíðartónleikar um Eyrarbakka en eina tónskáldið á Eyrarbakka er ekki einu sinni látið vita af þeim, hvað þá að það séu leikin verk eftir hann.“
Fyrir nokkrum árum síðan veiktist Valgeir af eitlakrabbameini og gekk í gegnum erfiðar læknismeðferðir við því. Síðan þá hefur hann látið það vera að segja sjálfur sögur á milli laga og jafn vel inni í miðjum lögum eins og hann áður gerði. Í staðinn segir Ásta frá og eiga þau gott samstarf í tónleikaskrám sínum.
Þau sem áður taka á móti gestum á Bakkastofu vikulega og fyrr í þessum mánuði héldu þau stóra tónleika í Dómkirkjunni. Ásta segir ekkert til fyrirstöðu fyrir Valgeir að koma fram á tónleikum. Þess vegna sé þessi sniðganga svo skrýtin.
Hitt málið lýtur að tónleikum Hörpu þar sem leikin verða lög hljómsveitarinnar Spilverks þjóðanna sem verður 50 ára á næsta ári. En í henni voru Valgeir, Sigurður Bjóla, Egill Ólafsson og Diddú.
Tónleikarnir eru titlaðir Spilverk þjóðanna – Heiðurstónleikar. Eins og segir í lýsingu hjá miðasölu er um að ræða endurtekningu á tónleikum sem Jón Ólafsson, Hildur Vala, Valdimar Guðmundsson og hljómsveitin Skafararnir héldu í Salnum í Kópavogi.
„…nú skal leikurinn endurtekinn með fulltingi Ólafs Egilssonar og sjálfrar Diddúar!“ segir í lýsingunni. En Ólafur er sonur Egils, sem greindist með Parkinson sjúkdóminn árið 2022.
Að sögn Ástu var Valgeiri og Sigurði Bjólu var þem ekki boðið að taka þátt heldur tilkynnt um tónleikana fyrir nokkrum mánuðum síðan og þeim boðnir tveir boðsmiðar hvorum. Urðu þeir sárir vegna þessa. Ekkert samráð hafi verið haft við þá, sem hófu að semja lög Spilverksins áður en Egill og Diddú bættust við heldur var þeim aðeins tilkynnt að tónleikarnir yrðu haldnir. Valgeir sér ekki ástæðu til að mæta þegar svona hefur verið staðið að málum. „Að verið sé að heiðra okkur skýtur skökku við þegar svona er staðið að málum,“ segir Valgeir.
Þeir Sigurður Bjóla eru einhuga um að það sé þeirra sjálfra að koma að afmælishátíð Spilverks þjóðanna og hvernig það sé gert enda áttu saman upptökin að þessari einstöku hljómsveit.