Metro skýrir frá þessu og segir að á myndbandsupptöku sjáist þegar Stukalov heimsótti bekk einn og ræddi við nemendur. Þetta var í Vladimir-héraðinu. Markmiðið með þessu er að telja börnunum trú um réttmæti innrásarinnar.
Á upptökunni heyrst 9 ára drengur spyrja Stukalov: „Hvernig var það fyrir þig, hvernig leið þér þegar þú framdir fyrsta morðið?“
Kennari hans greip þá fram í og sagði: „Þetta er ekki morð, þetta er stríð.“
Stukalov tók þá til máls og sagði: „Þetta er ekki morð, en ég skil þig. Þetta er ekki eins og í tölvuleikjum þegar þú skýtur og færð 100 stig. Þú skýtur á óvininn og þú veist ekki hver afdrif hans verða. Þú gætir hafa hitt hann og hann féll niður. En þú veist ekki hvort hann dó, særðist eða er á lífi. Kannski fór kúlan ekki einu sinni í gegnum skothelda vestið hans.“
Hann sagði börnunum að hann reyni alltaf að skjóta „óvinina“ í fæturna til að „komast hjá því að drepa þá beint“.
Hann sagði börnunum einnig að ekki séu allir Úkraínumenn óvinir og að óvinirnir „séu nasistar“.