Aktívistinn Ta-Nehisi Coates mætti í vinsæla morgunþáttinn CBS Mornings á dögunum tli að ræða um nýja bók sína sem fjallar stöðuna í Palestínu. Viðtalið hefur nú sett allt á annan endann og hafa þáttastjórnendurnir tveir, Tony Dokoupil og Gayle King fengið á sig harða gagnrýni, en þó fyrir sitt hvorn hlutinn.
Hvað Dokoupil varðar þá þykir hann hafa gengið fram af ósanngirni. Hann er ekki fæddur gyðingur heldur tók upp trúnna síðar á lífsleiðinni þegar hann gekk að eiga fyrrverandi eiginkonu sína sem býr nú í Írael ásamt börnum þeirra. Dokoupoil gekk hart fram gegn aktívistanum sem hann sakaði um að vera öfgamaður og húðskammaði hann fyrir einhliða efnistök. Hann hefði í bók sinni átt að fjalla um átökin milli Ísrael og Palestínu með hlutlausari hætti, svo sem með því að gera grein fyrir sjónarmiðum Ísrael.
Aktívistinn vissi ekki sitt rjúkandi ráð enda reiknað hann með að viðtalið yrði á jákvæðu nótunum. Hann hefur sakað þáttastjórnandann um að ræna viðtalinu fyrir sína eigin pólitík. Coates tók fram í gagnrýni sinni að hinn þáttastjórnandinn, Gayle King, hefði verið mun faglegri. Hún hefði komið til hans fyrir viðtalið og farið yfir hvað yrði rætt, hvaða spurninga hún myndi spyrja og slíkt.
Fyrir vikið hefur King nú fengið gagnrýni yfir sig fyrir að brjóta gegn ritstjórnarreglum CBS. Það sé ekki fagmennska að segja viðmælanda fyrir fram um hvað verði rætt.
Framkvæmdastjóri fréttadeildar CBS hefur gefið út að Dokoupil hafi brotið gegn reglum miðilsins um hlutleysi fréttamanna. Blaðamenn megi hafa sínar skoðanir, en þurfi að skilja þær eftir heima hjá sér. Dokoupil er sagður sjá eftir framgöngu sinni.
Málið hefur valdið fjaðrafoki innanhúss hjá CBS og hafa stjórnendur fundað stíft og sent minnisblað til starfsmanna þar sem þeir eru minntir á að það sé í fínu lagi að spyrja viðmælendur beittra og erfiðra spurninga en slíkt þurfi að vera gert af hlutleysi og ekki megi ganga harðar gegn einstaklingum byggt á persónulegum skoðunum fréttamanns. Málið sýni að tími sé kominn að CBS sem vinnustaður taki samtalið um hlutdrægni.