Jakob ræddi þetta á Alþingi á þriðjudag og benti á að fyrr þann dag hefði allstór nefnd haldið á vit gamla herraríkisins með ærnum tilkostnaði, þar á meðal þingmenn.
„Fram undan er fjölmenn ferð til Aserbaídsjan á loftslagsráðstefnu og fjölmargar aðrar ferðir þingmanna á dagkaupi, dagpeningum, rándýrar ferðir. COSAC er ein ráðstefnan sem ég hef áður sótt og er algjörlega tilgangslaus, en það er svona að vera maður með mönnum og að mæta er pressan. Ég ætla ekki að vera skemmtilegur í þessari ræðu þegar ég segi: Obbinn af þessum ferðum er gjörsamlega tilgangslaus.“
Benti Jakob á að um væri að ræða rándýrar ferðir sem þyrfti að skera niður verulega.
„Hvers vegna nefni ég þetta núna? Við erum að horfa upp á, eins og kom fram í ræðu fyrr í dag og reyndar í gær, að fólk á ekki fyrir sundferð handa börnunum sínum. Við erum með tugþúsundir hér í einu ríkasta landi heims, tugþúsundir fólks á öllum aldri með hungurvofuna á hælunum. Við þær aðstæður í 1.500 milljarða hagkerfi er gjörsamlega óviðeigandi að leggjast í dýrar lúxusreisur þingmanna og annarra embættismanna á fullum dagpeningum,“ sagði Jakob sem benti á að nýverið hefði umboðsmaður Alþingis verið skapaður að nýju og óskaði hann honum velfarnaðar í sínum störfum.
„Ég tel að það mætti vel svara kostnaði og gott það að hefja markvissan niðurskurð á óþarfanum og skipa hér aðhaldsmann Alþingis,“ sagði Jakob Frímann að lokum.