Segja má að allt logi í litháískum stjórnmálum vegna fíkniefnamáls frá Íslandi. Þann 13. október næstkomandi fer fyrri umferð þingkosninganna fram þar í landi og þar hefur frambjóðandi flokksins „Nemunas aushra“ eða Dögun Nemunas valdið usla. Athafnamaðurinn Aleksandr Furs er sagður hafa styrkt flokkinn um 17.500 evrur, andvirði 2,6 milljónir króna, og fengið sæti á lista flokksins að launum. Var Furs sagður farsæll viðskiptamaður en ekki fylgdi sögunni að í maí á þessu ári hlaut hann dóm á Íslandi fyrir aðild að fíkniefnabroti.
Hins vegar gat hann ekki falið 20 ára gamlan dóm sem hann hlaut í Litháen fyrir innbrot þó að hann reyndi að fegra söguna talsvert samkvæmt þarlendum fjölmiðlum. Þannig hafi Furs skrifað í æviágrip sitt að hann hafi verið tekinn fyrir að stela eplum þegar raunin var sú að hann stal svefnsófa, tveimur hægindastólum og rafmagnseldavél ásamt vinum sínum.
Málið hefur vakið mikla athygli í Litháen enda eru talsverðar líkur á því að Furs nái sæti á litháíska þinginu en hann er í 15. sæti listans. Leiðtogi flokksins, Remigijus Žemaitaitis, hefur sagt að málið hafi komið honum í opna skjöldu og hann hafi aðeins frétt af því í gegnum fyrirspurnir þarlendra blaðamanna. Umræðan ytra er þó á þá leið að flokkurinn hafi innheimt óeðlilega háar upphæðir í gegnum félagsgjöld manna eins og Furs.
Þá er Žemaitaitis afar umdeildur stjórnmálamaður. Hann var rekinn úr öðrum flokki, Frelsi og Réttlæti, fyrir fordómafullar yfirlýsingar sínar um gyðinga. Hann skilgreinir sinn nýja flokk, sem nýtur meðbyrs fyrir kosningarnar, sem vinstri-miðjuflokk með kristileg gildi að leiðarljósi.
Áhrifin af kókaínumræðunni íslensku eru hins vegar skaðleg og sérstaklega í ljósi þess að flokkurinn er runninn út á tíma til að gera breytingar. Ekki er hægt að taka Furs út af listanum fyrir kosningarnar á sunnudaginn og peningar hans eru enn í sjóðum flokksins.
Þann 27. maí síðastliðinn var Furs dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjanesi fyrir hlutdeild í fíkniefnalagabroti. Um var að ræða tilraun til að smygla 48,86 grömmum af kókaíni til Íslands.
Rússinn Sergey Gaysin, sem ítrekað hefur komist í kast við lögin hérlendis fyrir líkamsárásir, kynferðis- og fíkniefnalagabrot, var sakfelldur fyrir að standa að innflutningnum í desember 2020. Hann er sagður hafa borið ábyrgð á hraðsendingu með Fedex þar sem að umslag með fíkniefnunum var innanborðs.
Sjá einnig: Sergey Gaysin dæmdur fyrir brot gegn fyrrverandi eiginkonu
Lögreglan fylgdist svo með því hvernig tveir milliliðir tóku við bréfinu og komu því að lokum í hendurnar á Furs Þegar lögreglan handtók hann fleygði hann umslaginu út um gluggann á húsnæðinu þar sem hann var staðsettur.
Furs neitaði að tjá um málið við skýrslutöku hjá lögreglu annað en að hann lýsti yfir sakleysi sínu. Kemur fram í dómsorði að hann hafi ekki áður gerst brotlegur hérlendis.
Stjórnmálamaðurinn hefur útskýrt málið ytra á þá leið að hann hafi verið ranglega dæmdur og að dómnum hafi verið áfrýjað. Hann hafi því ekki þurft að gefa það upp fyrir kosningarnar ytra enda búist hann fastlega við því að vera sýknaður í Landsrétti.
Litháískir miðlar hafa gert talsvert úr því að Furs sækist eftir þingsætinu því þá njóti hann friðhelgi sem þingmaður. Það er þó harka ólíklegt í ljósi þess að dómurinn hérlendis er skilorðsbundinn og því ekkert útlit fyrir að stjórnmálamaðurinn þurfi að kynnast íslenskum fangaklefa í bráð.