Í bókinni kemur fram að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi íhugað alvarlega að beita kjarnavopnum í Úkraínu og bandarísk yfirvöld hefðu haft gríðarlegar áhyggjur af stöðu mála. Þetta hafi orðið til þess að Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði Rússlandsforseta við „hörmulegum afleiðingum“ ef hann myndi grípa til kjarnavopna.
Áður en bandarísk yfirvöld komust á snoðir um áætlanir Pútíns mátu Bandaríkjamenn það svo að 5-10% líkur væru á því að Rússar myndu beita kjarnavopnum. Í ljósi nýrra upplýsinga hafi Bandaríkjamenn aukið líkurnar í 50%.
Í bókinni segir Woodward að Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, hafi fengið skipun frá Joe Biden um að „hafa strax samband við Rússa“ og segja þeim hvaða afleiðingar það myndi hafa ef þeir gripu til kjarnavopna. Í umfjöllun Mail Online kemur fram að Sullivan hafi verið hvattur til að vera „grimmur og hótandi“ án þess þó að vera taka of sterkt til orða.
Joe Biden Bandaríkjaforseti er einnig sagður hafa sent Vladimír Pútín skilaboð þar sem hann varaði hann við því að beita kjarnavopnum.
Á þeim tæpu þremur árum sem liðin eru frá innrás Rússa í Úkraínu hafa Pútín og fylgismenn hans ítrekað varað Vesturlönd við því að þeir munu ekki hika við að beita kjarnavopnum ef fullveldi Rússlands er ógnað á einhvern hátt. Rússar hafa verið ósáttir við þann stuðning sem Úkraínumenn hafa fengið í stríðinu og hótað að ráðast á þjóðir sem sjá Úkraínumönnum fyrir vopnum sem notuð eru í gagnárásum á Rússland.
Í bókinni segir Woodward einnig frá samtali sem Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, átti við rússneskan kollega sinn, Sergei Shoigu, í október 2022. Í því samtali lýsti Austin því að Bandaríkjamenn hefðu fengið upplýsingar um að Rússar hygðust beita taktískum kjarnavopnum í Úkraínu. Varaði hann við því að Bandaríkjamenn – og heimsbyggðin raunar öll – myndi líta það mjög alvarlegum orðum og notaði hann orðin „world-changing event“ í því samhengi.
Þá er Austin sagður hafa varið Shoighu við því að ríki eins og Kína, Indland, Tyrkland og Ísrael myndu gera allt sem þau gætu til að einangra Rússland. Shoighu er sagður hafa svarað því til að hann kynni illa við að sæta hótunum, en Austin hafi svarað að bragði: „Herra ráðherra, ég er leiðtogi öflugasta hers í sögu heimsins. Ég hóta ekki.“