fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Íslendingar opinbera laun sín – „960 fyrir skatt, arkitekt“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 9. október 2024 19:30

Fólk úr alls konar geirum svaraði spurningunni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar skatturinn opinberar staðgreiðsluskrárnar síðsumars á hverju ári eru birtar áætlaðar tekjur þeirra ríku og frægu í fjölmiðlum, byggt á tekjuskatti. Þetta eru meðal annars forstjórar, stjórnmálamenn, listamenn og þekkt fólk úr þjóðmálaumræðunni. Minna er fjallað um hvað Jón og Gunna, venjulegir Íslendingar sem vinna venjuleg störf eru með í laun.

Um þetta hefur hins vegar verið rætt á samfélagsmiðlinum Reddit í dag eftir að einn netverji spurði fyrir forvitni sakir: „Hver eru launin ykkar og hvað gerið þið?“

Svörin létu ekki á sér standa, frá fólki í alls konar störfum. Hafa ber í huga að að þó flestir nefni útborguð laun eftir skatt þá nefna sumir frekar heildarlaun sín.

490 þúsund sem næturvörður

„Circa 320þ eftir skatt. Vinn í Össur,“ segir einn sem segist vinna í samsetningardeildinni, það er við að líma saman parta.

„420 þús tæplega eftir skatt og á von á kauphækkun,“ segir einn sem starfar fyrir fyrirtæki sem heldur úti LED auglýsingaskiltum.

„420 þús eftir skatt,“ segir einnig einn netverji sem segist starfa í verslun hjá Samkaup.

„Um það bil 440 eftir skatt,“ segir öryrki sem starfar í 50 prósent starfi sem kennari. „303k eftir skatt,“ segir öryrki.

„Í kringum 480k,“ segir pípulagningarnemi.

„490 þús eftir skatt,“ segir einn sem starfar sem næturvörður. Aðspurður um hvort að þetta sé róleg vinna, það er hvort það gefist tími til dæmis til þess að læra segir hann svo vera en starfið taki þó sinn toll af heilastarfseminni.

„Tæplega 500þ eftir skatt,“ segir sölumaður í golfverslun.

Sundlaugar borga mismikið

„500+þúsund eftir skatt,“ segir stuðningsfulltrúi á unglingastigi. „Hræðilegt umhverfi. Krakkar með engan aga, rosa dónaleg, o.s.frv. En hef aldrei verið svona „financially stable“ nokkurn tímann í lífi mínu þannig að ég þarf bara að þrauka þetta af.“

„520.000kr eftir skatt,“ segir sundlaugarvörður hjá Reykjavíkurborg. Segist hann hafa starfað við það í nokkur ár. Sundlaugarvörður sem starfar úti á landi segist hins vegar vera með 420 þúsund krónur eftir skatt.

„540 eftir skatt,“ segir söluráðgjafi og almennur starfsmaður í sérvöruverslun. Annar slíkur segist hafa 550 þúsund.

„550.000 eftir skatt,“ segir ólærður smiður.

Betri laun sem kennari erlendis

„550-600 eftir skatt,“ segir grunnskólakennari. Hann segist þó í raun vera í meira en 100 prósent vinnu vegna fjölda hópa. Annar grunnskólakennari segist aðeins vera með 420 þúsund krónur eftir skatt. Kennari sem starfar erlendis segist hins vegar vera með 800 þúsund krónur eftir skatt þrátt fyrir að hafa tekið á sig launalækkun með að fækka tímum.

„580 eftir skatt,“ segir talmeinafræðingur.

„600K+ eftir skatt,“ segir tölvuleikjahönnuður.

„Um 700 fyrir skatt,“ segir kokkur í leikskóla. Þetta sé 36 tíma vinnuvika, 8 til 16 virka daga.

„750þús (u.þ.b. 500 eftir skatt),“ segir aðstoðarverslunarstjóri í matvörubúð.

„750-800 eftir skatt,“ segir einn læknir. Gefur hann þó ekki upp hvort hann sé sérfræðilæknir eða ekki.

„770k eftir skatt,“ segir flugvirki.

850 þúsund sem forritari í banka

„Meðaltal þetta árið 805 fyrir skatt,“ segir viðskiptafræðingur sem vinnur í sölu og markaðsmálum. „Hef hæst farið í 1.000.000 þetta árið.“

„849 þús eftir skatt,“ segir verslunarstjóri í Bónus.

„840 e. skatt,“ segir verkfræðingur í samgöngumálum. Nýútskrifaður verkfræðingur segist vera með 720 þúsund krónur.

„850 eftir skatt,“ segir forritari í banka.

„850-1.050 eftir skatt,“ segir verkfræðingur sem starfar við dagvinnu í álveri. Segist þó taka bakvaktir fimmtu hverju viku.

„960 fyrir skatt,“ segir arkitekt.

„1.300þ f. skatt,“ segir verkefnastjóri.

„1750000 fyrir skatt,“ segir ráðgjafi hjá erlendu ráðgjafafyrirtæki með skrifstofu á Íslandi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe