Kærustupar nálægt þrítugu fékk skilorðsbundna fangelsisdóma með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir hegningar- og vopnalagabrot. Bæði eiga nokkurn sakaferil að baki, aðallega vegna fíkniefna- og þjófnaðarbrota.
Bæði voru ákærð fyrir líkamsárás þann 29. ágúst 2022 í Reykjavík. Maðurinn fyrir að hafa hótað karlmanni líkamsmeiðingum með því að beina hníf að honum, „en hótunin var til þess fallin að vekja ótta hjá A um líf, heilbrigði og velferð hans, en ákærði var vopnaður tveimur hnífum á almannafæri og allt þar til hann var handtekinn skömmu síðar af lögreglu í Guðrúnartúni í Reykjavík,“ eins og segir í ákæru.
Konan var ákærð vegna sömu líkamsárásar í tveimur liðum: líkamsárás fyrir að hafa ýtt þolandanum og vopnalagabrot með því að hafa, „á sama tíma og í ákærulið nr. 1, verið vopnuð þremur hnífum og fimm hnífsblöðum á almannafæri og allt þar til ákærða var skömmu síðar handtekin af lögreglu í Guðrúnartúni í Reykjavík,“ eins og segir í ákæru.
Konan var einnig ákærð fyrir þjófnað í fimm ákæruliðum og að hafa í tveimur tilvika „verið verið vopnuð hníf á almannafæri og allt þar til ákærða var skömmu síðar handtekin af lögreglu utandyra á Fífuhvammsvegi í Kópavogi.“ Stal konan fatnaði, snyrtivörum og tveimur ostakökum úr verslunum Lyf og heilsu, Lindex og Hagkaup í Kringlunni, og verslunum H&M og Lyfju í Smáralind.
Í niðurstöðu dómara kom fram að karlmaðurinn á nokkurn sakaferil að baki vegna fíkniefnabrota, umferðarlagabrota, þjófnaðarbrota, vopnalagabrots og fyrir brot vegna minniháttar líkamsmeiðingar, og konan vegna fíkniefnabrots og þjófnaðarbrota.
Bæði játuðu öll brot sín og var litið á játningar þeirra þeim til málsbóta. Var karlmaðurinn dæmdur til að sæta fangelsi í 45 daga og konan í 75 daga, en báðar refsingar eru skilorðsbundnar til tveggja ára.
Karlmaðurinn var jafnframt dæmdur til að sæta upptöku á tveimur hnífum og konan upptöku á fjórum hnífum og fimm hnífsblöðum. Bæði þurfa að greiða málskostnað upp á 200 þúsund krónur til verjanda síns.