fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Pressan

Hvernig er 5. stigs fellibylur? Ógnvekjandi skýringarmyndband varpar ljósi á það

Pressan
Miðvikudaginn 9. október 2024 11:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúar á Flórída búa sig nú undir „storm aldarinnar“ en fellibylurinn Milton mun væntanlega ná landi á vesturströnd Flórída í kvöld. Vísindamenn og almannavarnir hafa hvatt fólk á þeim svæðum sem óttast er að verði verst úti til að yfirgefa heimili sín, ella eiga hreinlega á hættu að deyja.

Milljónir íbúa hafa þegar brugðist við og var umferðaröngþveiti víða á þjóðvegum Flórída í gær þar sem fólk freistaði þess að koma sér í skjól.

Í Bandaríkjunum er fellibyljum skipt í fimm flokka eftir styrkleika þeirra. Í 1. stigs fellibyl er þrýstingur í auga hans yfir 980 millibör og lítil hætta á miklu tjóni. Hættan á tjóni fer svo stighækkandi eftir því sem þrýstingurinn minnkar.

Í 5. stigs fellibyl er þrýstingurinn kominn undir 920 millibör og hættan á stórtjóni mikil. Það er nefnilega ekki bara vindhraði sem hefur áhrif því oft fylgja fellibyljum mikil sjávarflóð og gæti sjávarstaðan á ákveðnum svæðum, til dæmis í nágrenni Tampa, hækkað um fleiri metra.

New York Post segir frá því að myndband sem Weather Channel birti fyrst árið 2013 hafi vakið töluverða athygli nú í aðdraganda yfirvofandi fellibyls. Í umfjölluninni var sýnt á grafískan hátt hvers má vænta í fellibyljum af mismunandi styrkleika. Ef fer sem horfir og Milton gengur yfir Flórída sem 5. stigs fellibylur má vænta þess að tjón verði mjög mikið.

Í öðru myndbandi frá 2018 sem einnig hefur vakið athygli síðustu daga varpar Weather Channel ljósi á þau sjávarflóð sem geta fylgt fellibyljum. Myndbandið var unnið þegar fellibylurinn Florence gekk yfir Norður- og Suður Karólínu árið 2018.

Í umfjöllun New York Post kemur fram að Milton gæti orðið það öflugur að þörf sé á að endurskoða kerfið sem flokkar styrkleika fellibylja. Jafnvel sé þörf á að koma á 6. stiginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt