„Á mér brenna ýmis mál og fjölmargir hafa verið í sambandi við mig, bæði úr stjórnmálum og af öðrum vettvangi,“ segir Halla við Morgunblaðið í dag.
Í frétt blaðsins kemur fram að Halla hafi verið í „óformlegri umræðu fólks á meðal og gjarnan verið orðuð við pólitíska þátttöku“ eins og það er orðað. Halla þótti standa sig vel í forsetakosningunum og leiddi hún lengi vel í skoðanakönnunum. Hún endaði með 15,7% greiddra atkvæða.
Halla segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um næstu verkefni, en eftir áramót heldur hún til kennslu við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.
„Hvað svo verður kemur í ljós með vorinu. Það sem er fast í hendi er að framtíðin er spennandi og í henni vil ég leggja mitt af mörkum til að landið okkar, auðlindir þess og samfélag allt dafni, eins og ég lagði áherslu á með forsetaframboði mínu síðasta vor,“ segir hún við Morgunblaðið.