fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fókus

Tárast þegar hann heldur á dóttur sinni – „Ég átti ekki að geta það“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 10. október 2024 11:59

Bjarki Viðarsson. Mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er ótrúlegt að fá að upplifa venjulegt líf,“ segir Bjarki Viðarsson, gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV.

Þegar Bjarki var yngri bjóst hann aldrei við því að hann myndi fá að upplifa drauminn um að eignast fjölskyldu og lifa heilbrigðu lífi. Hann var djúpt sokkinn í kókaín- og klámfíkn á þrítugsaldri og sá enga leið út. En það var ljós við enda ganganna og er Bjarki í dag edrú fjölskyldufaðir og heldur úti vinsæla hlaðvarpinu Götustrákar ásamt Aroni Mími Gylfasyni.

Bjarki skaust fram á sjónarsviðið fyrir einu og hálfu ári síðan þegar fyrsti þáttur Götustráka kom út. Síðan þá hefur hann nýtt vettvanginn sem opinber persóna til að tala um erfiða hluti, hluti sem margir þora ekki að tala um, jafnvel ekki við sína nánustu. Í Fókus ræðir hann einnig um æskuna og djúpa sjálfshatrið sem fylgt hefur honum nær alla ævi. Hann talar einnig um undirheimana, skuldasúpu og smálánafyrirtæki sem hann segir erfiðara að kljást við en dópsala.

Allt þetta og margt annað í Fókus. Þáttinn má horfa á í heild sinni hér að neðan, einnig er hægt að hlusta á Spotify.

video
play-sharp-fill

Bjarki segir að eftir að hafa haldið uppi leikriti nær allt hans líf hafi hann ákveðið að það væri kominn tími til að svipta hulunni af öllu saman og fela ekkert. Hann hafi því tekið meðvitaða ákvörðun þegar hann byrjaði með Götustráka að hann ætlaði að vera opinn og nýta fortíð sína til að hjálpa öðrum.

„Þegar ég og Aron Mímir stofnuðum Götustráka þá var það okkar heilaga að við ætluðum ekki að fela neitt. Af því við vorum búnir að vera í feluleik allt okkar líf og hugsuðum, af hverju að vera ekki heiðarlegir með allt sem við viljum,“ segir Bjarki og bætir við að þetta hafi einnig verið frelsandi.

Tók við keflinu

Bjarki ætlaði sér aldrei að nota fíkniefni, hann hafi einfaldlega verið ákveðinn í því að koma aldrei nálægt slíkum efnum.

„Annar bróðir minn er fíkill en hefur verið edrú í átta ár, eða rúmlega það. Ég heimsótti hann inn á meðferðarstofnun þegar ég var tíu ára. Ég var að gera eitthvað verkefni með honum og hann var að segja mér hvaða efni hann hafði notað og ég man bara hvað ég var ógeðslega reiður út í hann, að heyra að hann hafði notað e-pillur, ég ætlaði sko aldrei að vera þessi gaur. Ég ætlaði aldrei að leggja svona mikið á mömmu mína og pabba að þau myndu vera andvaka yfir mér með áhyggjur. En svo tók ég heldur betur við keflinu,“ segir hann.

„Í byrjun, þá ætlar maður ekkert að vera vondur gaur. Manni vill bara ganga vel. En ég var bara þannig að ég vildi eiginlega fá allt upp í hendurnar. Pabbi var á sjó fyrstu 20 ár lífs míns, ég skildi ekki af hverju hann var alltaf í burtu. En ég sé það núna að pabbi gerði allt til að framfleyta fjölskyldu sinni. Öll gildi hans er eitthvað sem ég virði í dag.“

Bjarki er í dag faðir.

Var einn á vökunni í sjö daga

Bjarki ræðir um æskuna í þættinum sem má horfa á hér að ofan. Einelti ól af sér lágt sjálfsmat og mikla reiði. Þegar hann var í áttunda bekk byrjaði hann að drekka áfengi og með árunum kynntist hann harðari efnum. Allt breyttist þegar hann prófaði kókaín, hann hafði fundið „sitt efni.“

„Þetta er svona dýrasta sport sem þú getur farið í. Þetta heltók mig. Ég man ég byrjaði að nota amfetamín, ég prófaði að reykja kannabis. Mér fannst kannabis viðbjóður, prófaði kannski að reykja 6-7 sinnum og fékk alltaf hvítuna. Ég skildi ekki gaura sem gátu bara tjillað að reykja kannabis í tölvunni,“ segir hann. Hugtakið „hvítan“ er gjarnan notað fyrir ástand þegar manneskju líður mjög illa eftir kannabisreykingar, verður flökurt, á erfitt með að standa og jafnvel kastar upp.

„Mig langaði að vera ör, á ferðinni með galopin augu og vakandi í marga daga. Þannig leið mér best. Ég var alltaf hræddur við að fara að sofa, því ég vissi að þegar ég færi að sofa myndi ég vakna venjulegur með móral. Þannig ég reyndi að vaka eins lengi og ég gat, þangað til ég gat ekki tekið smálán eða ég gat ekki fengið meira kredit hjá dópsalanum eða yfirdrátt eða eitthvað svona, þegar allt var lokað, þá gat ég hætt.“

Yfirleitt varði þetta ástand í um viku. „Þetta voru síðustu fimm til sex árin í neyslu þar sem ég var gjörsamlega heltekinn. Ég er 33 ára í dag, þannig þetta er svona frá 25 til 30 ára þar sem ég gjörsamlega missti vitið af neyslu. Og neysla mín var ekki þannig að ég var í partýi á rúntinum með vini mínum. Ég var bara einn. Ég fann mig best einn, ég vildi ekki að neinn myndi hafa samband við mig. Ég setti „airplane mode“ á símann og svo var ég bara einn í sjö daga að horfa á klám.“

Bjarki þegar hann var í neyslu.

„Ég var orðinn brenglaður í restina“

Þegar Bjarki hefur opnað sig um þessi málefni hefur hann fengið fjölda skilaboða frá öðrum strákum og karlmönnum sem eru að kljást við það sama. Hann segir að öllum sé velkomið að senda honum skilaboð.

„Það voru stórglæsilegir, kannski einkaþjálfarar, með einhverri gullfallegri konu sem voru að bíða eftir að hún myndi sofna svo þeir gætu farið að horfa á klám. Þetta er ekkert bara einhverjir tölvunördar sem eru að bíða eftir að geta horft á nakinn kvenlíkama. Þetta er miklu dýpra en það. Þetta er að flýja raunveruleikann í eitthvað sem við viljum kannski ekki. Kjaftæðið sem ég var að horfa á, ég myndi aldrei vilja það raunverulega,“ segir hann.

Klám verður sífellt grófara. „Fyrsta myndbandið á einhverri klámsíðu er eiginlega bara ofbeldi. Þetta er eiginlega allt orðið… þetta er allt orðið svo hart og gróft að þetta er orðið viðurstyggilegt,“ segir Bjarki.

„Ég var orðinn brenglaður í restina, ég vissi ekki hvað væri rétt og rangt. Mig langaði ekki einu sinni að hitta kvenfólk því ég hélt að venjulegt kynlíf væri ekki fyrir mig, að ég þyrfti eitthvað extra eða eitthvað svona kjaftæði, sem er svo bara ekki raunin.“

Aðsend mynd.

Trúði ekki að hún hefði áhuga

Aðspurður hvernig sambönd hans voru á þessum tíma segir Bjarki að hann hafi ekki átt í neinum slíkum.

„Ég var einn fyrstu þrjátíu ár lífs míns. Eða 31 ár eiginlega, en svo kynntist ég kærustunni minni,“ segir hann brosandi.

Hann rifjar upp þeirra fyrstu kynni en hann segir að hann hafi fyrst haldið að hún væri að hrekkja hann, að það væru einhverjar vinkonur á bak við lyklaborðið að skemmta sér með því að þykjast hafa áhuga, svo lágt var sjálfsmatið á þessum tíma.

Bjarki á erfitt með að trúa lífi sínu í dag.

Hættir hjá Brotkast

Bjarki er hamingjusamur fjölskyldufaðir en gengur þar að auki vel á öðrum sviðum. Nýlega færðu þeir Aron Götustráka frá streymisveitunni Brotkast yfir á áskriftarsíðuna Pardus. Aðspurður hvers vegna þeir hafi ákveðið að færa sig eftir ár hjá Brotkast, sem er í eigu fjölmiðlamannsins Frosta Logasonar, segir hann:

„Við hættum, það voru samningsörðugleikar en við erum ótrúlega þakklátir Brotkasti, Frosta og Arnari því þeir gáfu okkur tækifæri að byrja þarna.“

Bjarki talar mjög fallega um vináttu hans og Arons. „Ég veit ekki hvort ég væri í því eða ekki ef hann hefði ekki tekið á móti mér þegar ég kom úr meðferð. Við vorum að vinna á sama stað og við áttum mörg löng símtöl, áður en Götustrákar og allt byrjaði, þegar við vorum að kynnast.“

Leiðir þeirra lágu fyrst saman fyrir fimm árum, þegar þeir voru báðir á djamminu, og er óhætt að segja að þeim hafi ekki komið svona vel saman þá. „Ég þoldi ekki Aron, mér fannst hann ekkert eðlilega leiðinlegur. Sem sýnir líka að fólk í neyslu er ekki líkt sjálfu sér, maður er allt önnur manneskja.“

Aðsend mynd.

Að fá að upplifa venjulegt líf

Kærasta Bjarka á barn úr fyrra sambandi og gekk hann í stjúpföðurhlutverkið þegar þau byrjuðu saman. Þau eiga einnig saman dóttur sem verður eins árs í október.

„Það er ótrúlegt að fá að upplifa venjulegt líf,“ segir Bjarki. Hann rifjar upp verkefni sem hann skilaði inn í tíunda bekk.

„Ég man, mamma var að sýna mér þetta um daginn, þegar ég kláraði tíunda bekk þá átti ég að skrifa: „Hvernig framtíðin verður,“ eða eitthvað svoleiðis. Og ég skrifaði: „Labba um með barnavagn og fallegri konu.“ Sama þó ég hafi verið fokking reiður og byrjaður að drekka mikið og eitthvað svona ofbeldi og kjaftæði, þá var þetta alltaf draumurinn minn. Ég er búinn að ná honum í dag,“ segir hann.

„Þegar ég held á barninu mínu, segjum eins og þegar hún vaknar klukkan tvö um nóttina, bara að halda á henni í svefni, það er svo mikið þakklæti. Stundum tárast ég bara við að horfa á hana, þetta er svo óraunverulegt fyrir mig. Ég átti aldrei að geta það.“

Horfðu á þáttinn með Bjarka hér að ofan eða hlustaðu á Spotify.

Fylgdu Bjarka á Instagram og smelltu hér til að fylgja Götustrákum og horfa á þættina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Ævintýralegt drama í Hollywood – Kærurnar ganga á víxl með ásökunum um ófrægingarherferð og óboðlega framkomu

Ævintýralegt drama í Hollywood – Kærurnar ganga á víxl með ásökunum um ófrægingarherferð og óboðlega framkomu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ellý um hvernig næsta ár verður hjá Þórði Snæ – „Honum á eftir að ganga vel“

Ellý um hvernig næsta ár verður hjá Þórði Snæ – „Honum á eftir að ganga vel“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Íslenskt par í „eyðsluafvötnun“ í janúar – Fjárhagurinn betri og kynlífið reglulegra

Íslenskt par í „eyðsluafvötnun“ í janúar – Fjárhagurinn betri og kynlífið reglulegra
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ellý spáir í spilin: „Þau eru bæði sterk og hugrökk og það er ekkert annað í boði en að halda áfram“

Ellý spáir í spilin: „Þau eru bæði sterk og hugrökk og það er ekkert annað í boði en að halda áfram“
Hide picture