Segir Guðmundur, sem sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 1979 til 1983 og aftur 1987 til 1991, að mörg teikn séu á lofti sem minni á aðdraganda fyrri hruna.
Guðmundur bendir á að efnahagshrun gangi yfir heimsbyggðina með reglulegu millibili og allt fari í hringi í þeim efnum. Þannig sé mörgum hrunið 2008 enn í fersku minni.
„Seðlabanki Bandaríkjanna (Federal Reserve) ákvað að stórlega lækka vexti. Bankar og fjárfestingafyrirtæki gripu tækifærið og juku lán hjá seðlabankanum, sem brást við með mikilli prentun dollara. Peningamagn í umferð jókst, og bankar tóku að lána almenningi háar fjárhæðir á hærri vöxtum, jafnvel fólki sem hafði litla möguleika á að standa í skilum – undirmálslán. Lánaskilyrði, sem áður voru í hæsta lagi 60% af fasteignaverði, fóru yfir 90%,“ segir Guðmundur og rifjar upp aðdraganda hrunsins 2008.
„Þegar þessi lán fóru í vanskil, gripu bankar og fjárfestingasjóðir til þess ráðs að selja skuldabréf fasteignaviðskiptanna, jafnvel sem vafninga undirmálslána blandað saman við betri verðbréf, til að fela galla þeirra. Viðskiptin urðu gríðarleg, og milliliðirnir sem sáu um söluna högnuðust verulega. Vanskil urðu til þess að fjöldi fólks missti aleiguna, fasteignaverð hríðféll og atvinnuleysi jókst verulega. Hrunið varð ævintýralegt að umfangi,“ segir Guðmundur og bætir við að gallar kapítalíska kerfisins hafi orðið augljósir.
Nauðsynlegt hafi verið setja lög um víðtækt eftirlit og strangari skilmála innan kerfisins. Að lokum hafi almenningur borgað brúsann.
„Seðlaprentun Bandaríkjanna vekur margar spurningar. Uppsafnaður halli ríkisins nemur nú um 35,3 billjónum dala. Ein billjón jafngildir milljón milljónum. Verðgildi dollarans lækkar sem því nemur. Í raun er þetta eins konar skattlagning á þau ríki sem hafa safnað sjóðum í dollurum. Verðgildi dollarans sem heimsgjaldmiðils er því áhyggjuefni,“ segir Guðmundur sem spyr hvort hallinn sé að vaxa hraðar en þjóðarframleiðslan.
„Asíulöndin eru að snúa viðskiptum sínum meira að Indlandi, Kína, Taívan og Rússlandi. Nú eru mörg teikn á lofti sem minna á aðdraganda fyrri hruna. Skuldabréfamarkaðir fara lækkandi, fasteignaverð er á niðurleið, atvinnuleysi eykst, olíuverð lækkar og rafmyntir falla í verði. Evrópusambandið er einnig í vaxandi erfiðleikum. Heimurinn gæti jafnvel farið að sjá skýrari merki hruns fyrir áramót – jafnvel verra en 2008.“