Maðurinn var dæmdur í tíu ára fangelsi í héraðsdómi en dómurinn var þyngdur í tólf ára fangelsi í Landsrétti í sumar.
Í frétt RÚV kemur fram að maðurinn afpláni nú á Vernd sem er afplánun utan fangelsis.
Birgir Jónsson, settur fangelsismálastjóri, segir í frétt RÚV að hann geti ekki tjáð sig um einstök mál en hann útskýrir þó undir hvaða kringumstæðum fangar losna fyrr úr fangelsi.
„Þetta veltur auðvitað svolítið á þyngd dómsins sem viðkomandi fær, til að mynda hversu langan tíma fangi getur dvalið á Vernd, svo dæmi sé tekið. Þar er hámarkstími 18 mánuðir og það er háð ákveðnum skilyrðum,“ segir Birgir.
Maðurinn sem um ræðir var 18 ára og fimm mánaða þegar hann varð pólska manninum að bana og segir Birgir að vegna ungs aldurs þurfi hann aðeins að afplána þriðjung refsingarinnar. Þá dragist frá sá tími sem hann sat í gæsluvarðhaldi sem og tími sem hann er á ökklabandi. Fleira þurfi að koma til, hegðun til dæmis.
Nánar er fjallað um málið á vef RÚV.