Live Science segir að fyrir um tveimur áratugum hafi vísindamenn uppgötvað að þessu efni var smurt á höfuð og hnakka múmía sem fundust í Xiahoe grafreitnum í norðvesturhluta Kína. Nú hefur DNA-rannsókn leitt í ljós að þetta er kefir ostur sem var gerður úr blöndu af kýr- og geitamjólk.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Cell.
Osturinn innihélt bæði bakteríur og sveppi, þar á meðal Lactobacillus kefiranofaciens og Pichia kudriavzevii, sem er einnig að finna í kefir nútímans.
Qiaomei Fu, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði í yfirlýsingu að þetta sé elsti osturinn sem vitað er um í heiminum og bætti við að gríðarlega erfitt sé að varðveita matvæli af þessu tagi í mörg þúsund ár og því sé þetta sjaldgæft og einstakt tækifæri sem hér gefst til að rannsaka fornan ost. Það geti aukið skilning okkar á mataræði og menningu forfeðra okkar.
Vísindamennirnir komust einnig að því að Lactobacillus kefiranofaciens kornin eru náskyld svipuðu korni frá Tíbet. Með því að greina gen bakteríunnar gátu þeir rakið þróunarferli hennar síðustu 3.600 árin.