Gylfi Þór Sigurðsson hefur misst af síðustu tveimur leikjum Vals vegna meiðsla en ætti að vera klár í slaginn fyrir landsleik Íslands og Wales á föstudag.
Eymsli í baki hafa hrjáð Gylfa í sumar sem hefur orðið til þess að hann hefur misst af nokkrum leikjum Vals.
Gylfi var ekki í hóp hjá Val í gær þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Breiðablik. „Hann var degi eða tveimur frá því að spila leikinn við Blika,“ sagði Hjörvar Hafliðason stjórnandi Dr. Football í dag.
Hrafnkell Freyr Ágústsson fór yfir málið. „Ef hann reynir á bakið þá kemur álag, það að hvíla hjálpar honum ennþá meira. Þarna þurfti hann að taka ákvörðun, keyra á þetta eða bíða og spila landsleikina og vera klár í leikinn gegn Stjörnunni sem skiptir mestu máli fyrir Val.“
Andri Már Eggertsson íþróttafréttamaður á Stöð2 Sport tók þá til máls. „Er Gylfi að fara þangað að labba inn í byrjunarliðið eftir að hafa ekki spilað síðustu tvo leikina. Spilar 23 september og var ekki nógu heill til að koma við sögu, mér finnst líka skrýtið eins og Age sagði að Gylfi hefði verið klár í síðustu viku. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd,“ sagði Andri.
Hrafnkell Freyr telur að þetta pirri engan Valsara að Gylfi mæti í landsleiki eftir að hafa misst af leikjum. „Ég held að Túfa átti sig á því að Gylfi er tíu sinnum stærri prófíll en hann.“