Ár er í dag liðið síðan um þrjú þúsund Hamas-liðar frá Gasa réðust inn í Ísrael og frömdu þar skelfilega stríðsglæpi. Hófst árásin með eldflaugaárásum á ísraelskar borgir og flugvelli, meðal annars á Jerúsalem þar sem hann var staddur ásamt um 90 Íslendingum sem voru að hefja skoðunarferð um landið.
Þórhallur rifjar atburðina upp í tilfinningaríkum pistli í Morgunblaðinu í dag.
Árásin kom Ísraelsmönnum í opna skjöldu en talið er að rúmlega 1.100 manns hafi verið myrt, þar á meðal fjöldi fólks sem mætti á tónlistarhátíð skammt frá landamærum Gasa.
„Skutu Hamasliðar alla sem reyndu að komast undan. Hið sama gerðu þeir í bæjum og sveitum sem þeir náðu til, gengu hús úr húsi og myrtu alla, karla, konur, börn og ungbörn. Ekki voru öll fórnarlömbin skotin, heldur voru einnig dæmi um afhöfðanir og annan óhugnað,“ segir Þórhallur í grein sinni.
Þá tóku Hamasliðar fjölda gísla þegar Ísraelsher brást við árásinni og segir Þórhallur að þessi dagur sé einn sá blóðugasti í sögu Ísraels. Eins og fólk almennt veit var árásin upphafið að skelfilegu stríði milli Hamas og Ísraels sem kostað hefur meira en 40 þúsund íbúa á Gasa lífið, þar á meðal fjölmörg börn. Hefur Ísraelsher verið sakaður um stríðsglæpi og hafa átökin kveikt ófriðarbál um öll Mið-Austurlönd sem ekki sér enn fyrir endann á.
Þórhallur segir að vikurnar fyrir 7. október hafi hann verið á ferð um Ísrael og Palestínu með ferðahóp frá Íslandi.
„Allt hafði verið með kyrrum kjörum í landinu helga og ekkert benti til þess sem í vændum var. Að mér læddist sú hugsun að ef til vill væri ástandið að lagast eitthvað og friður í kortunum. Ekkert var fjær sanni. Hópurinn minn átti að fljúga heim frá Ben Gurion-flugvelli að morgni þess 7. október. Daginn áður tók ég á móti 90 manna hópi til viðbótar sem ætlaði að dvelja með mér næstu 10 dagana á biblíuslóðum. Þannig var ég með um 140 Íslendinga í Ísrael þegar árás Hamas hófst,“ segir Þórhallur.
Hann segir að fyrri hópurinn hafi verið kominn á flugvöllinn er eldflaugum tók að rigna yfir hann og urðu allir að leita skjóls.
„En flugvél Icelandair var lent og þegar hlé varð á skothríðinni komust Íslendingarnir um borð og vélin á loft. Mikill var léttirinn þegar við sem vorum í Jerúsalem fréttum það, en þar dvaldi hinn nýkomni ferðahópur. Þangað var eldflaugahríð Hamas einnig bent. Sett var á útgöngubann og börn og konur send í loftvarnarbyrgi á hótelinu þar sem við dvöldum,“ segir hann.
Svo fór að öllu flugi á Ben Gurion-flugvöllinn var aflýst og eftir því sem leið á daginn og átökin hörðnuðu hafi verið útséð að af frekari ferðalögum um landið helga yrði að ræða.
„Enginn vissi hvernig átökin myndu þróast. Einhugur varð því hópnum í Jerúsalem um að snúa heim aftur sem fyrst. Fór nú í hönd löng helgi þar sem utanríkisþjónustan, Icelandair, Sigurður K. Kolbeinsson forstjóri Kólumbusferða sem var með í för og fleiri unnu að lausn með farþegum. Úr varð að flugvél Icelandair flaug til Amman í Jórdaníu á mánudagskvöld að sækja okkur, en við urðum að koma okkur þangað. Lagt var af stað frá Jerúsalem að morgni mánudags í rútum ásamt hópi Færeyinga og þýskra ungmenna og kennara þeirra sem flutu með. Höfðu þau frétt af fluginu hjá Íslendingum í sprengjubyrgi í Tel Aviv.“
Þórhallur segir að ekið hafi verið í gegnum Palestínu og að landamærum Jórdaníu. Var hópurinn stoppaður af herflokkum nokkrum sinnum á leiðinni en aðm lokum komst hann að landamærunum.
„Þar urðum við að yfirgefa rúturnar og ganga yfir landamærin, því ísraelskar rútur fengu ekki að fara yfir. Á landamærunum neyddu jórdanskir hermenn okkur til að greiða stórfé til að komast yfir og lagði ferðaskrifstofan út fyrir því. Loksins komumst við þó inn í Jórdaníu og í rútur sem biðu okkar.“
Þórhallur segir að komið hafi verið kvöld þegar hópurinn komst á flugvöllinn í Amman og út að Icelandair-vélinni þar sem íslensk áhöfn tók á móti honum.
„Svo mikill var feginleikinn að ganga upp landganginn í vélina að margir felldu tár. Þegar allir voru komnir um borð var flogið frá Amman, yfir Egyptaland, til Rómar þar sem skipt var um áhöfn. Og svo heim til Íslands. Nú er ár liðið og stríðið og hryllingur þess magnast með degi hverjum. En við sem þarna vorum 7. október 2023 erum þakklát íslenskum stjórnvöldum og Icelandair fyrir að bregðast hratt og vel við og koma okkur heim.“