Það eru fáir sem eru jafn harðorðir í sjónvarpi og fyrrum írski landsliðsmaðurinn Roy Keane sem lék mest allan feril sinn með Manchester United.
Keane var harðhaus inni á vellinum og er jafnvel enn harðari í sjónvarpi en hann er duglegur að bauna á hina ýmsu leikmenn.
Knattspyrnugoðsögnin Harry Redknapp telur þó að um leikþátt sé að ræða og að Keane sé alls ekki eins harður og margir halda.
Redknapp hafði þetta að segja í Soccer PM en hann er jafnvel tilbúinn að slást við Keane sem er mörgum árum yngri.
,,Ég held að Roy Keane sé ekki eins harður og hann vill meina. Þetta er allt leikþáttur. Ég hefði ekkert á móti því að slást við hann,“ sagði Redknapp.
Redknapp er 77 ára gamall og er fyrrum knattspyrnuþjálfari en hann þjálfaði sitt síðasta lið fyrir um sjö árum síðan.
Redknapp sagði þessi ummæli á léttu nótunum en hvort Keane svari til baka verður fróðlegt að fylgjast með.