London spilaði stórt hlutverk í að koma Jadon Sancho til Chelsea en þetta segir fyrrum þjálfari hjá Manchester United, Benni McCarthy.
McCarthy þekkir til Sancho sem er samningsbundinn United en var lánaður til Chelsea í sumar og mun enska félagið kaupa hann endanlega næsta sumar.
McCarthy segir að Sancho hafi verið með heimþrá hjá United og að það sé mögulega ástæða þess að hlutirnir gengu ekki upp á Old Trafford.
,,Hann er frábær strákur. Hann er með frábæran karakter og getur gert stórkostlega hluti á vellinum,“ sagði McCarthy.
,,Það er leiðinlegt að hlutirnir hafi ekki gengið fyrir Jadon hjá United því hann er leikmaður sem gat látið ljós sitt skína hjá félaginu.“
,,Hann er nær heimili sínu í dag, hann átti það til að laumast til London ansi mikið. Hann hefur saknað heimilsins og vildi vera nær fjölskyldu og vinum.“
,,Menningin í London er ansi sterk og sérstök svo ég tel að Jadon hafi viljað upplifa það á ný. Hann var mjög oft í borginni.“