Það eru margar sorglegar sögur til um fólk sem hefur neyðst til að leggja sér mannakjöt til munns. Sú frægast er líklega frá 1972 þegar 16 manns, sem lifðu af þegar flugvél brotlenti í Andesfjöllunum, lifðu af í miklum kulda í 72 daga með því að borða lík annarra farþega.
Víkjum þá aftur að spurningunni um hversu lengi maður getur lifað af með því að borða sjálfan sig. Þessari spurningu var nýlega velt upp á vef videnskab.dk sem fékk Jerk. W. Langer, lækni og kennara við Kaupmannahafnarháskóla, í lið með sér til að svara þessari spurningu.
Langer sagði að það sé hægt að lifa í um 40 daga án matar, sem sagt bara með því að ganga á líkamsforðann. Hann sagði að hægt sé að lifa lengur með því að borða sína eigin vöðva.
Hann sagði einnig að fræðilega séð geti maður borðað handleggi sína og fætur en hversu lengi dugir það til að halda líftórunni í fólki?
Hann sagði að með „ísköldum“ útreikningi sjáist að það sé í raun hægt að lifa nokkuð lengi af því að borða sjálfan sig. Í útreikningi sínum miðaði hann við 80 kg karlmann. Hann gæti borðað annan handlegginn, því hinn þarf hann að nota til að aflima sjálfan sig, og báða fæturna.
Hann miðaði síðan við hitaeiningafjölda í svínakjöti þegar kom að næringargildinu því eins og gefur að skilja eru ekki til neinar töflur yfir næringargildi mannakjöts. Hann komst að þeirri niðurstöðu að í einum handlegg og tveimur fótleggjum séu 75.000 hitaeiningar.
Hann miðaði við að viðkomandi hreyfi sig lítið því hann svelti og síðan dregur meira úr hreyfingu hans þegar hann er búinn að aflima sjálfan sig. Reiknaði Langer því með að viðkomandi þurfi 1.000 hitaeiningar á dag. Einn handleggur og tveir fótleggir myndu því duga í 75 daga og þeim til viðbótar koma þeir 40 dagar sem viðkomandi getur þraukað án þess að fá nokkuð að borða.
En síðan eru ýmsir þættir sem geta skipt máli. Til dæmis hvort viðkomandi fái sýkingu í kjölfar aflimunar eða hvort hann geti geymt kjötið á viðunandi hátt svo það skemmist ekki.