Í kjölfarið veltu margir fyrir sér hvað tveir ungir Svíar væru að gera við ísraelska sendiráðið í Kaupmannahöfn með fimm handsprengjur?
Cecilia Holmbom, sem er saksóknari í Stokkhólmi, sagði síðan að tengsl væru á milli málanna í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi en hún vildi ekki fara nánar út í hvaða tengsl eru þarna á milli.
TV2 segir að flest bendi til að málin tengist öðrum árásum á ísraelska sendiráðið í Stokkhólmi. Í janúar var handsprengju kastað að því en hún sprakk ekki. Í maí var 14 ára drengur handtekinn eftir að hann hleypti af skotum við sendiráðið. Í sömu viku var 15 ára drengur handtekinn þar sem hann var á leið að sendiráðinu í leigubíl. Hann var með hlaðið skotvopn meðferðis.
Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins í Stokkhólmi í síðustu viku en lögreglan hikar ekki við að segja að sjónir hennar beinist að Íran. Fredrik Hallström, hjá öryggislögreglunni Säpo, sagði á fréttamannafundi fyrir helgi að þegar aðferðafræðin við árásirnar sé skoðuð, bendi það til þess að Íran tengist málunum.
Öryggislögreglan segir að erlend ríki fái oft sænsk glæpagengi til að fremja ofbeldisverk í Svíþjóð. Hann sagði að þessi ríki hiki ekki við að beita ofbeldi eða öðrum formum aðgerða sem ógna öryggi Svíþjóðar og Svía. Í þessu samhengi noti þau einnig glæpagengi og aðra til að fremja ofbeldisverk gagnvart öðrum ríkjum í Svíþjóð.
Ein af þeim spurningum sem danska lögreglan þarf nú að reyna að finna svar við í tengslum við málið í síðustu viku, er hvernig standi á því að Íran fái sænska unglinga til að fremja glæpi í Danmörku?
Hér bendir margt til að „Kúrdíski refurinn“ komi við sögu. Hann er einn illræmdasti glæpaforinginn í Svíþjóð og heitir réttu nafni Rawa Majid. Hann er foringi Foxtrot glæpagengisins sem er eitt illræmdasta glæpagengi landsins. Það er umsvifamikið í fíkniefnaviðskiptum og hefur komið mikið við sögu í þeirri ofbeldisöldu sem hefur ríkt í landinu síðustu árin.
Hann er eftirlýstur í Svíþjóð en hefur haldið sig erlendis síðan 2018. Hann hefur meðal annars verið í Tyrklandi, þar sem hann er með ríkisborgararétt, og Íran, þar sem hann fæddist. Hann var handtekinn í Íran í október 2023 fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum.
En handtakan virðist ekki hafa slegið hann út af laginu því hann er enn talinn stýra Foxtrott og láti glæpagengið fremja afbrot í ýmsum löndum. Ísraelska leyniþjónustan Mossad segir að frá því að stríðið á milli Hamas og Ísraels braust út hafi Majid aðstoðað írönsk stjórnvöld við árásir á ísraelsk skotmörk í Evrópu.
Eftir skotárásina við ísraelska sendiráðið í Stokkhólmi í maí sagði Mossad að Foxtrott hafi staðið á bak við árásina fyrir hönd Íran.
Skítverk Foxtrott eru oft unnin af börnum og ungmennum, sem eiga á brattann að sækja félagslega, og þá bæði af sænskum ættum og af innflytjendaættum. Þau eru þvinguð til, eða greitt fyrir, að fremja allt frá leigumorðum til sprengjuárása. Samskiptin á milli þeirra og glæpagengjanna fara yfirleitt fram í gegnum dulkóðaðar samskiptaþjónustur.