fbpx
Sunnudagur 06.október 2024
Eyjan

Davíð Þór Björgvinsson: Besta starfið að vera háskólakennari

Ólafur Arnarson
Sunnudaginn 6. október 2024 12:00

Davíð Þór Björgvinsson í Cinque Terre á Ítalíu á síðasta ári.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við tókum tali dr. Davíð Þór Björgvinsson fyrrverandi dómara við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við HÍ, HR og Háskólann í Kaupmannahöfn, og fyrrverandi varaforseta Landsréttar. Tilefnið er að hann hefur að eigin ósk verið leystur frá embætti dómara og varaforseta við Landsrétt og tekið við starfi sem prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans á Akureyri. Við vildum ræða við hann um þessi vistaskipti hans og persónulegu hagi og vita hverju sætti.

Davíð Þór er í sambúð með Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur lögmanni, sem um var eitt kjörtímabil borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, sem á ensku nefnist: The Progressive Party and Friends of the Airport. Davíð segir Guðfinnu eiginlega hætta að spá í pólitík, hún einbeiti sér að því „sem hún er best í af öllum á Íslandi – að hjálpa fólki sem lendir í því að kaupa gallaðar fasteignir, einkum nýbyggingar sem margar eru sérdeilis illa byggðar. Hún er algjörlega frábær í þessu. Við erum frekar góð saman,“ segir Davíð Þór ákveðinn á svip, með glimt í auga.

Davíð Þór og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sambýliskona hans.

Davíð á fjögur börn. Elsti sonurinn, Davíð Steinn, lærði eins konar stærðfræðilega hagfræði í Toulouse í Frakklandi og LSE í London og starfar nú hjá að þróunarmálum hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Sá næsti, Ólafur Birgir, heitir í höfuðið á afa sínum á Akureyri. Hann er doktor í stærðfræði og starfar sem slíkur í við rannsóknir í Kaupmannahöfn. Þá er það píanóleikarinn, Hjalti Þór, sem hefur tekið fleiri gráður í tónlistarfræðum og píanóleik en Davíð Þór treystir sér til að muna. „Þessir drengir hafa komið nokkuð vel undan vetri, svona miðað við að hafa flakkað með okkur fyrrum hjónum frá einu landi til annars í Evrópu stóran hluta þeirra æsku. Þetta eru fullorðnir menn svo þeir verða úr því sem komið er að sættast á þetta. Svo er það örverpið, dóttir mín Svala, sem er að ljúka lögfræðinámi frá HR. Hún hefur staðið sig vel í náminu, elsku stelpan. Mamma þeirra, Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR, á auðvitað stærsta þáttinn í að þetta fór ekki illa,“ segir Davíð Þór og brosir einlæglega.

„Nú þegar maður er laus við barnauppeldið eyði ég frítíma mínum í sveitinni á Brekkum í Rangárþingi Ytra. Geri vel að hestunum mínum, fer í reiðtúra, ditta að húsinu við smíðar o.fl. Svo er stór garður sem þarf að sinna, rækta rótarávexti og þreifa fyrir mér í blómarækt, slá og hirða um landið o.fl. Svo les ég íslenskar bókmenntir æði mikið í seinni tíð og margt fleira. Reyni að komast yfir það helsta í þeim efnum. Æfi mig á gítarinn, en mér hefur farið nokkuð mikið aftur í því fagi. Svo hef ég hlaupið nokkuð mikið gegnum árin; maraþon, síðan hálfmaraþon og nú hin síðari ár 10 km. Svo fer ég kannski í skemmtiskokkið!“

Davíð Þór hefur nú meiri tíma til að sinna hestamennskunni.

En þá að starfinu. Hvers vegna hættirðu í Landsrétti?

„Dómarastarfið í Landsrétti er mjög annasamt og bindandi. Það heftir mann á margan hátt, sérstaklega vegna þess að dómar eru fjölskipaðir sem þýðir að maður er nokkuð fastur í fyrirframgefinni dagskrá með kollegunum yfir lengri tíma. Þetta þýðir að erfitt er að komast í burtu o.s.frv. án þess að raska dagskránni,“ segir Davíð Þór.

Hann nefnir einnig að möguleikar dómara til að tjá sig um málefni líðandi stundar séu mjög takmarkaðir og til þeirra séu gerðar kröfur sem takmarki þátttöku á vissum sviðum mannslífsins sem ekki séu alltaf rök fyrir, allt í nafni sjálfstæðis dómstóla. Slíkar viðjar geti verið erfiðar fyrir suma einstaklinga og kannski einkum þá sem hafa snert af talþrýstingi, sem Davíð Þór gengst við að vera haldinn.

„Að þessu sögðu er þó margt ágætt við þetta starf, ýmis áhugaverð mál og krefjandi viðureignar. Þá hef ég notið þess að starfa í Landsrétti með góðu fólki sem ég mun vissulega sakna. Landsréttur er líflegur og skemmtilegur vinnustaður, þar sem saman eru komnir bestu lögfræðingar landsins. Samskipti á vinnustað eru skemmtileg og gefandi þótt dómsmálin, sem þar eru meðferðar, séu frá mínum sjónarhóli mismunandi áhugaverð. Þótt ég viti að ég muni sakna margra hluta frá þessu tiltölulega stutta tímabili á minni starfsævi hef ég eftir talsverðar bollaleggingar komist að þeirri niðurstöðu að ég vil taka síðust árin í opinberri þjónustu í akademíunni til að njóta þess frelsis til orðs og æðis sem starf háskólakennara býður upp á. Eftir að hafa farið víða um stofnanir innanlands sem utan er niðurstaða mín sú að besta starfið sé í raun að vera háskólaprófessor. Einu sinni prófessor, alltaf prófessor,“ segir Davíð Þór og brosir út að eyrum.

Ekki úr vegi að rifja upp fyrstu skrefin í Landsrétti, nýr dómstóll, sem hökti nokkuð í byrjun vegna deilna um skipan dómara. Hvernig setti þetta mark á starfið í upphafi? 

„Vissulega er minnisstætt allt umstangið sem varð vegna skipan dómara í Landsrétt, en þrír þeirra fjögurra dómara sem deilur stóðu um voru einfaldlega skipaðir upp á nýtt og einn fór á eftirlaun. Þótt þessi málefni um skipan dómara færu hátt í almennri umræðu og stóryrði féllu um hin stórkostlegu vandræði sem myndu af þessu hljótast hafði þetta í hagnýtum skilningi eitt og sér furðu takmörkuð áhrif á starfsemi réttarins. Það eru að minnsta kosti fáir að pæla í þessu lengur.“

Hvernig metur þú þýðingu Landsréttar og hlutverk. Hefur hann falið í sér þær réttarbætur sem að var stefnt?

„Varðandi réttarbætur, já ég myndi hiklaust segja það. Eitt meginmarkmiðið með stofnun Landsréttar var að tryggja fulla meðferð sakamála á tveimur dómstigum, svo sem skuldbindingar samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu gera ráð fyrir. Þetta hefur gengið eftir og í stóra samhenginu felst í þessu gríðarleg réttarbót,“ segir Davíð Þór.

Hann segist telja að almenn samstaða ríki um þetta. „Og eiginlega er það þannig að óskiljanlegt má heita að Hæstiréttur (sem efra dómstig) hafi starfað í áratugi áður en Landsréttur tók til starfa án þess að hlýða á ákærða eða lykilvitni í máli milliliðalaust. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni eigi lögfræðingar eftir að hlæja að þessu eins og við nú hlæjum að því kerfi þegar sýslumaður var allt í senn; lögreglustjóri, ákærandi og dómari í einu og sama málinu og flestum fannst þetta bara hið besta mál lengst af.“

Davíð bendir á að spilanir á framburði úr héraðsdómi og skýrslutökur séu mjög ríkur þáttur í meðferð sakamála fyrir Landsrétti og teljist nú órjúfanlegur hluti af réttlátri málsmeðferð í sakamálum á hér á landi. „Aðalmeðferð getur þannig tekið heilan dag og fleiri daga í stærstu málum. Auknar kröfur um spilanir og viðbótarskýrslutökur við meðferð sakamála og tíminn sem í þær fer er stærsta áskorun Landsréttar og reynir mjög á afköst dómstólsins og einstakra starfsmanna hans sem ekki var hugsað nægilega út í þegar fjöldi dómara og annarra starfsmanna við réttinn var í upphafi ákveðinn. Ég held að ýmsir þeir sem unnu að undirbúningi stofnunar dómstólsins hafi gert sér mjög óljósa grein fyrir hvað þeir voru að fara út í. Þetta hefur að mínu mati reynt miklu meira á réttinn en fyrrnefndar deilur um skipan dómara.“

Davíð Þór fræðir laganema í Háskólanum í Flórens um Mannréttindasáttmála Evrópu.

Hvers vegna Háskólinn a Akureyri?

„Það er kannski ástæða til að nefna það fyrst að mitt fyrsta starf sem lögfræðingur var starf fulltrúa á lögmannsstofu þáverandi tengdaföður míns, Ólafs Birgis Árnasonar hæstaréttarlögmanns á Akureyri, en þessi sómamaður er nú látinn fyrir allmörgum árum. Ég var þar að vísu ekki lengi, bara til nokkurra mánaða. Samt sem áður mitt fyrsta starf eftir lögfræðipróf. Eftir að hafa komið við á ýmsum stöðum á Íslandi, í Bandaríkjunum, Suður-Afríku, Skotlandi, Genf í Sviss, Lúxemborg, Strassborg og Kaupmannahöfn má kannski segja að við hæfi sé að fara aftur til Akureyrar og klára ferilinn þar. Minnir mig svolítið á Paradísarheimt HKL og Steinar Steinarsson undir Steinahlíð þegar hann koma aftur í heimasveitina eftir dvöl með Mormónum vestur í Saltlækjarsitru (Salt Lake City), – í sveitinni þar sem á „… morgnana og kvöldin voru túnin svo græn að þau voru rauð og á daginn var víðáttan svo blá að hún var græn.“ Þetta er því heimkoma í tvennum skilningi, aftur í akademíuna og aftur til Akureyrar þar sem ferðalagið um lendur lögfræðinnar hófst,“ segir Davíð Þór dreyminn á svip.

„En þegar þegar skáldskapartilþrifum sleppir þá hef ég reyndar verið að kenna við lagadeild Háskólans á Akureyri í nokkur ár, mismunandi mikið hverju sinni. Ég hef áttað mig að því gríðarmikla hlutverki sem HA, sem leggur megináherslu á sveigjanlegt nám og fjarnám, gegnir í því hlutverki að tryggja jafnræði og jafnrétti í aðgangi að góðri háskólamenntun á Íslandi, óháð búsetu eða öðrum högum nemenda. Þá er ónefnd sú þýðing sem staðsetning Háskólans á Akureyri hefur fyrir bæinn, sem ef til vill brátt verður borg, og byggðirnar þar í kring. Mér finnst það mjög spennandi kostur að leggja þessari starfsemi lið og geri mér von um að fjölþætt reynsla mín við hin ýmsu störf á vettvangi lögfræðinnar nýtist þeim fjölmörgu frábæru nemendum sem þar stunda nám í lögfræði. Þá hlakka ég til að starfa nánar með því góða fólki sem starfar við lagadeild HA og öðru því fólki sem myndar það samfélag sem Háskólinn á Akureyri er.“

Davíð Þór hefur stundað maraþonhlaup, er kominn niður í hálfmaraþon og 10 kílómetra og segist kannski enda í skemmtiskokkinu.

Davíð Þór segir vistaskiptin þýða að hann verði mun frjálsari en hann var í starfi dómara og hann muni dvelja talsvert mikið á Akureyri þótt aðalheimilið verði áfram á Seltjarnarnesi. „Ég stefni að því að skapa mér góðar aðstæður í höfuðstað Norðurlands til að stunda kennslu og skriftir, en ég stefni því að ljúka ýmsum hálfkláruðum verkum verkum sem tölvan mín er uppfull af og koma þeim í útgáfu. Ég legg áherslu á að skrifa bara um það sem mér sjálfum finnst áhugavert og skemmtilegt. Svo mun ég halda áfram með bloggið mitt, Juris Prudentia, og reyna að leggja gott til umræðu um málefni sem eru ofarlega á baugi og þá frá lögfræðilegum sjónarhóli. Svo kannski tek það lengra um með umfjöllun um bókmenntir, sagnfræði og heimspeki sem ég lærði svolítið til og annað sem mér finnst áhugavert og skemmtilegt,“ segir Davíð Þór Björgvinsson, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir

Peningamaskínan Trump selur úr á 13 milljónir
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið