fbpx
Laugardagur 05.október 2024
Fréttir

Fór með hundinn úr landi en átti eftir að iðrast þess

Ritstjórn DV
Laugardaginn 5. október 2024 12:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matvælaráðuneytið hefur úrskurðað um kæru eiganda hunds nokkurs sem kom til landsins hundinn í apríl síðastliðnum. Vildi hundaeigandinn meina að þar sem hann væri að koma með hundinn aftur heim þyrfti hann ekki að framvísa innflutningsleyfi. Matvælastofnun tók ekki undir það og enduðu samskipti hundaeigandans og stofnunarinnar með því að eigandinn glataði eignarhaldi sínu yfir hundinum. Hundaeigandinn sagði í kæru sinni til matvælaráðuneytisins að hann hefði verið beittur miklum órétti í málinu en ráðuneytið tók hins vegar ekki undir það.

Upphaf málsins má rekja til þess að hundaeigandinn bókaði pláss fyrir hund í einangrunarstöðinni Móseli. Sama dag hafði Matvælastofnun samband við hundaeigandann og óskaði eftir frekari upplýsingum um hundinn. Hundaeigandinn upplýsti að ekki væri um innflutning að ræða og að hann þyrfti ekki leyfi þar sem einungis væri verið að koma með hundinn aftur heim en það hefur verið afmáð úr úrskurðinum frá hvaða landi hundurinn var fluttur.

Matvælastofnun upplýsti þá hundaeigandann um að til þess að flytja inn dýr þyrfti innflutningsleyfi og þyrfti hundurinn að dvelja í tvær vikur á einangrunarstöð, jafnframt þyrfti hundurinn að uppfylla heilbrigðisskilyrði samkvæmt reglugerð um innflutning hunda og katta. Daginn eftir tjáði Hundaeigandinn Matvælastofnun að hann gæti lagt fram myndrit af heilsufarsdagbók hundsins. Jafnframt óskaði hann eftir undanþágu frá ákveðnum heilbrigðiskröfum. Umsókn um innflutningsleyfi á hundinum var síðan lögð fram en Matvælastofnun upplýsti hundaeigandann um að ekki væri hægt að veita undanþágu varðandi heilbrigðiskröfur og rannsóknir á hundinum.

Fékk eins dags frest

Þegar eigandinn og hundurinn komu til landsins var sá síðarnefndi fluttur í mótttökustöð Matvælastofnunar á Keflavíkurflugvelli. Eigandinn var upplýstur um að til þess að fá leyfi til að flytja hundinn inn í landið yrði hann að framvísa fullgildu undirrituðu heilbrigðisvottorði ásamt tilskildum rannsóknarniðurstöðum. Fékk eigandinn frest fram til hádegis daginn eftir og var upplýstur um að yrði þessum gögnum ekki skilað þá yrði hundurinn fluttur úr landi innan sólarhrings.

Hundaeigandinn mótmælti málsmeðferðinni harðlega. Hann sagði alls ekki um ólöglegan innflutning hunds að ræða þar sem hundurinn væri með upprunavottorð frá Matvælastofnun og þar sem hundurinn hafi verið löglegur þegar farið var með hann úr landi.

Hundaeigandinn tilkynnti málið til matvælaráðuneytisins en Matvælastofnun hélt ótrauð áfram og tilkynnti honum að umsókn hans um leyfi til innflutnings á hundinum væri hafnað. Lagt var fyrir eigandann að annast brottflutning hundsins úr landi. Hann tilkynnti þá Matvælastofnun að enginn gæti tekið við hundinum erlendis. Tilkynnti þá Matvælastofnun eigandanum að hundurinn yrði aflífaður. Að kvöldi sama dags var þeirri ákvörðun hins vegar snúið við.

Nýir eigendur

Daginn eftir leitaði Matvælastofnun til dýravelferðarsamtaka sem samþykktu að taka við hundinum. Eigandanum var tilkynnt um það og spurður hvort hann samþykkti það eða vildi flytja hundinn sjálfur úr landi.

Daginn eftir sendi Matvælastofnun eigandanum ítrekun og tjáði honum að ef hann samþykkti ekki að dýravelferðarsamtökin tækju við eignarhaldi hundsins væri ekki annað í stöðunni en að aflífa hann. Samþykkti þá hundaeigandinn loks að samtökin yrðu hinir nýju eigendur hundsins.

Algjör óþarfi

Í kæru sinni til matvælaráðuneytisins sagði hundaeigandinn að hann hefði ekki verið að flytja hundinn inn í landið heldur koma með hann aftur heim. Matvælastofnun hefði á síðasta ári gefið út uppruna- og heilbrigðisvottorð fyrir hundinn vegna ferðar til hins ónefnda lands og hafi hann þá uppfyllt allar kröfur laga og reglugerða um bólusetningar. Þetta sama vottorð hafi stofnunin notað þegar hundurinn var fluttur úr landi í maí síðastliðnum. Eigandinn sagði hundinn með allar tilskyldar bólusetningar og hefði verið skoðaður af dýralækni í hinu ónefnda landi.

Hundaeigandinn sem nú hafði verið sviptur hundinum sagði í kæru sinni að hann hefði verið þvingaður af hálfu Matvælastofnunar til þess að afsala sér eignarhaldi á hundinum til dýravelferðarsamtakanna. Hann sagði Matvælastofnun hafa brotið gegn eignarétti sínum og misbeitt valdi sínu.

Hafi ekki virt lögin

Matvælastofnun sagði í sínum andsvörum að hundaeigandinn hefði ekki virt ákvæði laga og reglugerða um innflutning dýra þrátt fyrir leiðbeiningar stofnunarinnar. Það hefði verið að frumkvæði stofnunarinnar sem að dýravelferðarsamtökin voru beðin um að taka við eignarhaldi hundsins til að forða honum frá aflífun. Hundaeigandinn hafi í engu sinnt ábendingum stofnunarinnar sem vísaði í ákvæði laga og reglugerða um að innflutningur dýra væri óheimill nema að uppfylltum skilyrðum. Skýrt sé í reglugerðum að hundum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins verði að fylgja frumrit heilbrigðis- og upprunavottorðs. Vottorðið skuli vera rétt útfyllt og gefið út af dýralækni með starfsleyfi í útflutningslandinu. Þessu hafi hundaeigandinn ekki farið eftir.

Hundaeigandinn sagði vottorðið sem Matvælastofnun gaf út vegna flutnings hundsins úr landi á síðasta ári ætti að duga. Hann sagði hundinn fæddan á Íslandi og með íslenskan ríkisborgararétt og því væri um skýrt lögbrot að ræða af hálfu stofnunarinnar.

Í nánari andsvörum tiltók Matvælastofnun ýmsa sjúkdóma sem ekki höfðu verið rannsakaðir eða meðhöndlaðir hjá hundinum, í samræmi við ákvæði reglugerðar um innflutning katta og hunda.

Engin þvingun

Matvælaráðuneytið sagði í sinni niðurstöðu að ljóst væri að það vantaði upp á að hundurinn uppfyllti átta skilyrði sem talin eru upp í reglugerðarinni um innflutning katta og hunda og varða bólusetningar, undirritað heilbrigðisvottorð og rannsóknarniðurstöður. Það væri ekkert í málinu sem réttlætti undanþágur frá þessum ákvæðum.

Ráðuneytið tók ekki undir það að hundaeigandinn hafi verið þvingaður til þess að afsala sér hundinum. Honum hafi verið ítrekað veittur frestur til þess að koma með lausnir en aldrei lagt fram nein gögn eða sýnt frumkvæði að því að útvega stað fyrir hundinn erlendis. Matvælastofnun hafi bent honum á þann kost að flytja hundinn aftur erlendis og koma honum síðan aftur heim með réttum hætti.

Ákvörðun Matvælastofnunar um að synja um leyfi til að flytja umræddan hund til landsins var því staðfest.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hart deilt um myndbandsupptöku Víkurfrétta af tilfinningaríkum fundi – „Ég dauðsé eftir því að hafa hlýtt því eins og hundur“

Hart deilt um myndbandsupptöku Víkurfrétta af tilfinningaríkum fundi – „Ég dauðsé eftir því að hafa hlýtt því eins og hundur“
Fréttir
Í gær

Starfsmaður dæmdur fyrir þjófnað á 300 þúsund krónum

Starfsmaður dæmdur fyrir þjófnað á 300 þúsund krónum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bíræfnir bófar á ferð í sumarhúsahverfum – Brutu upp gáma og stálu dósum frá björgunarsveit

Bíræfnir bófar á ferð í sumarhúsahverfum – Brutu upp gáma og stálu dósum frá björgunarsveit
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grunaður morðingi á Neskaupstað áfram í gæsluvarðhaldi

Grunaður morðingi á Neskaupstað áfram í gæsluvarðhaldi