Allt frá því að Donald Trump sneri sér fyst að stjórnmálum árið 2015 hefur hann neitað að leggja fram sannfærandi gögn um heilsufar sitt. Ef hann nær kjöri að nýju í október þá verður hann elsti forseti Bandaríkjasögunnar fyrir lok kjörtímabilsins. Sitjandi forseti, Joe Biden, á metið í dag en hann er 81 árs. Þar sem Trump er 78 ára þá verður hann 82 ára við lok kjörtímabilsins.
Independent rekur að þrátt fyrir háan aldur þá hafi Trump neitað að færa sönnur fyrir því að honum sé ekki farinn að hrörna. Ekki nema stutt bréf sem hann sagði stafa frá lækni sínum árið 2015 en sá læknir skrifaði að Trump yrði heilbrigðasti maður sögunnar til að taka við embætti forseta.
Læknirinn Ronny Jackson starfaði fyrir Hvíta húsið þegar Trump var forseti en hann greindi frá því árið 2018 að Trump væri með ágætan blóðþrýsting og ekkert benti til hjartasjúkdóma. Hann væri þó með of hátt kólesteról þó svo hann væri að taka inn lyf til að lækka það. Eins var forsetinn þá nálægt því að glíma við offitu. Þar með ætti Trump á hættu að fá heilablóðfall eða hjartaáfall.
Trump er búinn að léttast nokkuð síðan hann tilkynnti um framboð sitt til embættis forseta 2024 og í nóvember birti hann stutta línu frá nýja persónulega lækninum sínum sem hrósaði frambjóðandanum fyrir þyngdartapið, sagði blóðprufur koma vel út og að heilsa frambjóðandans væri bæri „framúrskarandi“ og „frábær“.
Independent bendir á að forsetinn hafi þó ekkert gert til að sýna fram á vitsmunalegt heilsufar. Faðir Trump glímdi við Alzheimer sem getur gengið í erfðir. Trump haldi því sjálfur fram að hann hafi rústað öllum vitsmunaprófum og notaði þær fullyrðingar óspart þegar hann taldi sig etja kappi um embætti forseta við Joe Biden. Miðillinn tekur þó fram að mótframbjóðandinn, Kamala Harris, hafi ekkert vottorð lagt fram og ekki hafi Joe Biden gert það þó svo að sögusagnir færu að ganga um meinta hrörnun hans.
Undanfarið hafa birst myndskeið af Trump þar sem hann virðist ekki alveg hafa allt á hreinu. T.d. hefur hann talað með samhengislausari hætti en hann á að sér. Hann virðist stundum ruglast á því hverjum hann sé að bjóða sig fram gegn og fer rangt með nöfn á mönnum og stöðum.
The Salon grenir frá því að nýlega hafi Trump hætt við að koma í viðtal til 60 Minutes. Síðan hafi hann komið fram með óskiljanlegum hætti á blaðamannafundi á þriðjudaginn þar sem hann gerði lítið úr alvarlegum heilaskaða sem bandarískir hermenn urðu fyrir í árás Írana á meðan Trump var forseti. Á annan tug eldflauga var skotið að herstöðinni í al-Asad í Írak þann 8. janúar 2020. Enginn hermaður lét lífið en 109 greindust í kjölfarið með alvarlegan heilaskaða. 29 þeirra hlutu orðuna „purpurahjartað“ eftir árásina. Trump tísti á þessum tíma að að allt væri í himnalagi eftir árásina. Á blaðamannafundinum á þriðjudaginn sagði Trump að enginn hefði verið harðari gagnvart Írak en hann, en frambjóðandinn virtist þar rugla saman Írak og Íran. Svo tók hann fram:
„Í fyrsta lagi, slösuðust? Hvað þyðir að slasast? Ertu að meina það að þeir fengu höfuðverk? Því sprengjurnar lentu aldrei á herstöðinni.“
Þessi ummæli fóru þveröfugt ofan í uppgjafahermenn og þingmenn. Öldungadeildarþingmaður Arizona, Mark Kelly, sem eins er uppgjafahermaður skrifaði: „Þetta er maður sem gerði lítið úr fórn þeirra sem slösuðust í þjónutu við land sitt á meðan hann var við stjórn. Þetta er maður sem ætti aldrei að fá slíkt ábyrgðarhlutverk aftur.“
Washington Post greindi frá því að það hafi verið erfitt að fylgja Trump eftir á blaðamannafundinum. Hann hafi vaðið úr einu í annað og stundum voru orð hans með öllu óskiljanleg. Þar með talið fullyrðing um að demókratar ætli sér að „halda svörtum og latneskum börnum föngum í fjölskyldu-stjórnvaldi“
Öldungadeildarþingmaðurinn Brian Shatz sagði á Twitter að fullt tilefni væri til að efast um vitsmunalega burði Trump til að gegna embætti. „Ég held að það sé rökrétt, þegar maður horfir á þetta myndskeið, og hugsar til þess að hann hætti við viðtalið hjá 60 minutes, að velta því fyrir sér hvort eitthvað sé í gangi. Ég veit ekkert um það, kannski er hann við góða heilsu, en þetta er samt ekki andstyggilegur hlutur til að spyrja um.“