fbpx
Föstudagur 04.október 2024
Fréttir

Eiga ekki húsið lengur en fá samt gallaða glugga bætta – Huldumaður kom að verkinu

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 4. október 2024 16:30

Grindavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Húseigendur í Grindavík fá bætur greiddar vegna galla á gluggum í húsi þeirra, og það þrátt fyrir að Fasteignafélagið Þórkatla ehf. hafi keypt húsið fullu verði eftir að dómur héraðsdóms Reykjaness féll í apríl 2023. Landsréttur taldi hins vegar að lækka greiðslu skaðabóta þar sem húseigendur höfðu aðeins skipt út hluta af gluggunum gölluðu áður en fasteignafélagið keypti húsið. Skaðabótakrafan féll ekki undir kaupsamninginn við fasteignafélagið.

Glugga- og hurðakaup sem spönnuðu fjögur ár

Málsatvik eru rakin í dómi héraðsdóms, en alls keyptu hjónin í sjö skipti glugga og hurðir af fyrirtæki sem var með rekstur sinn í Grindavík. Árið 2013 ákváðu hjónin að láta saga út úr stofuvegg og setja þar í staðinn glugga með hurð út í garð. Keyptu þau glugga og svalahurð á suðurgafl hússins ásamt ísetningarefni og vinnu af fyrirtækinu. Í apríl 2014 keyptu þau einnig glugga og ísetningu af sama aðila og svo tvo glugga á efri hæð austurgafls í ágúst sama ár. Í mars 2015 keyptu hjónin enn af sama fyrirtæki tvo glugga á neðri hæð á suðurvegg og einn glugga á neðri hæð á austurgafli ásamt ísetningu. Í ágúst sama ár keyptu þau glugga og hurð til viðbótar í bíslag á austurgafl. Í það skipti sá starfsmaður frá fyrirtækinu ekki um að setja gluggann og hurðina í heldur leituðu hjónin til annars aðila með ísetninguna. Í september sama ár keyptu hjónin þrjá glugga á austurhlið, tvo uppi og einn niðri og sá fyrirtækið heldur ekki um ísetningu þeirra. Á árinu 2016 keyptu hjónin að lokum svalahurð á efri hæð í vestur og glugga í borðstofu á 2. hæð í vestur af stefnda og óskuðu eftir því að fyrirtækið sæi um ísetningu. 

Talsvert tjón þremur árum seinna

Eftir að talsverður leki kom í fasteignina eftir að vatnslögn fór þar í ágúst 2019, sýndu rakamælingar enn raka í veggjum og lofti, sérstaklega á efri hæð, eftir lagfæringar. Starfsmaður frá fyrirtækinu athugaði ástanda glugga og uppsetningu þeirra, og sagði hann að ekkert væri við ísetningu glugganna að athuga. Um ári eftir að vatnstjónið varð gerði suðaustan slagveður og í framhaldi fór loft í baðherbergi að bólgna. Aftur taldi fyrirtækið ekkert vera að ísetningu glugganna utan að einn gluggi var tekinn út og við það hafi komið í ljós blautt timbur fyrir neðan glugga sem skipt var um og glugginn aftur settur í. Taldi fyrirtækið orsök lekans vera frágangur við utanhúsklæðningu hússins og þakkant. 

Hjónin kröfðu fyrirtækið um bætur, sem var hafnað. Hjónin fengu þá dómkvaddan matsmann til að meta ísetningu, einangrun og frágang stefna á gluggunum. Matsgerð lá fyrir í nóvember 2021 þar sem að kostnaður við úrbætur á tíu gluggunum var talinn vera alls 1.934. 900 krónur. Fyrirtækið hafnaði kröfunni, en hjónin fóru í viðgerðir og framkvæmdir við gluggaskipti í húsinu í ágúst 2021. 

Stefndu þau síðan fyrirtækinu til greiðslu bóta. 

Sagði hjónin hafa enga þekkingu á hvernig gluggar eigi að vera

Í dómi héraðsdóms er farið ítarlega yfir málavöxtu og matsgerð matsmanns. Þar segir:

„Kemst matsmaður því að skýrri niðurstöðu og segi: „Það er niðurstaða matsmanns að mikið vatn í þéttiefnum með gluggum geti hæglega verið valdur að rakaskemmdum þar í kring og inni þar sem það safnast upp og leitar síðan leiða í burtu. Oft hefur bil myndast með gömlum gluggum vegna rýrnunar í timbri þar sem vatn kemst auðveldlega um og þegar það myndast undirþrýstingur í húsum og vatn getur því sogast inn. Þess vegna er nauðsynlegt að þéttingar með gluggum séu öruggar og þoli veðurálagið.“ Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til matsgerðarinnar verði að teljast fullljóst og sannað að þjónustu stefnda hafi verið verulega ábótavant og ekki samræmst eðlilegum kröfum sem gera mátti til vinnubragða hans, hvort sem litið sé til samnings milli aðila, árangur þjónustunnar, eða árangur af unnu verki og því sem krafist verði af fagaðila.“

Benti dómari á að hjónin væru neytendur með enga þekkingu á því hvernig gluggar eiga að vera úr garði gerðir, og hafi þau leitað ítrekað til fyrirtækisins sem fagmanns til þess að reyna að ráða bót á upp kominni stöðu. „Hefði stefnda átt að vera ljóst að óvönduð ísetning hans á gluggunum gæti verið uppspretta tjóns stefnenda og að fleiri gluggar hefðu verið settir í með sama hætti. Enn fremur verði að telja að með því að hafa ítrekað fullyrt við stefnendur að ekkert hafi verið við gluggana að athuga hafi stefndi sýnt af sér verulegt gáleysi og villt stefnendum sýn um hver kynni að vera uppspretta leka og raka í húsinu. Hafi það verið til þess að stefnendur áttu erfiðara með að átta sig á upptökum og umfangi leka, og ekki síst til þess að þau gátu ekki gert sér grein fyrir því tjóni sem þau höfðu orðið fyrir fyrr en matsmaður hafði látið rífa upp gluggana, gaumgæft frágang stefnda og skilað matsgerð þar sem sleifarlag stefnda var staðfest. Af því sé ljóst að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum.“

Máttu gera ráð fyrir að gluggarnir myndu halda vatni minnst 10 ár

Við kaupin voru hjónin upplýst að um væri að ræða viðhaldsfría glugga með með tíu ára ábyrgð og að hver gluggi væri sérsmíðaður og þjónusta og viðhald væri í höndum og á ábyrgð stefnda. Sagði dómarinn hjónin því hafa mátt gera ráð fyrir því að gluggarnir og sú þjónusta sem stefndi veitti vegna þeirra þýddi ekki þyrfti viðhald og að gluggarnir myndu halda vatni í að minnsta kosti þann tíma. Ætti því að vera óumdeilt að stefndi ber ábyrgð á þjónustu sinni. Ábyrgð vegna glugganna sé enn í gildi og verði að telja að innan þeirrar ábyrgðar felist þjónusta og viðhald. Eins og fram hafi komið sinnti stefndi ekki þeirri þjónustu og viðhaldi sem honum bar þótt hann kæmi á staðinn og fullyrti að ekkert væri að gluggunum. Beri stefndi skaðabótaábyrgð á tjóni hjónanna.

Taldi dómari annmarka sem voru á þjónustu stefnda hafa leitt til margháttaðs tjóns fyrir hjónin. „Raunar sé það svo að stefnendur telja sig sýna mikla sanngirni í garð stefnda með því að krefjast einvörðungu skaðabóta sem ná yfir kostnað við það að ráða bót á þeim ágöllum sem vinnubrögð stefnda skildu eftir sig.“

Mótmælti öllum kröfum og sagði ábyrgð fyrnda

Fyrirtækið sem stefnt var í málinu mótmælti öllum kröfum hjónanna sem órökstuddum, tilhæfulausum og ósönnuðum. Taldi hann framlagða matsgerð sýna hvorki né sanna að hann beri bótaábyrgð á tjóninu sem hjónin héldu sig hafa orðið fyrir. Taldi hann umfjöllun og niðurstöður matsmanns hreinlega rangar og villandi. Niðurstaða matsmanns byggði á ástandi glugga á austurhlið hússins en stefndi hafi ekki séð um ísetningu á þremur gluggum á þeirri hlið. Hjónin hafi ekki viljað upplýsa hver setti aðra glugga í á þeirri hlið, ásamt hurð. Stefndi beri ekki ábyrgð á þjónustu sem hann innti ekki af hendi og þar sem niðurstaða matsmanns lúti að ísetningu þessara glugga sé augljóst að matsgerðin sé hreinlega röng og krafa stefnenda þar af leiðandi verulega vanreifuð enda sé óumdeilt að stefndi hafi ekki séð um ísetningu glugga á austurhlið og jafnframt hafi stefnendur rofið ísetningu svo ábyrgð stefnda samkvæmt þjónustukaupalögum hafi fallið niður.

Stefndi sagði hjónin einnig hafa sýnt af sér verulegt tómlæti með því að aðhafast ekkert svo árum skiptir og löngu eftir að viðskipti aðila löngu uppgerð, en eins og áður sagði áttu viðskiptin sér stað á árunum 2013-2016, en hjónin kvörtuðu fyrst í lok árs 2019 og stefndu svo vegna málsins í apríl 2022. Taldi stefndi alla sanngjarna fresti vegna kvartana löngu liðna.

Taldi hjónin hafa sýnt fram á sök og fyrirtækið þurfa að greiða skaðabætur

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að gluggaísetning stefnda hafi verið ábótavant og ekki staðist þær kröfur sem gerðar hafi verið til gluggaísetninga þegar gluggarnir voru settir í.  Taldi dómarinn að hjónin hafi ekki mátt vita um gallann eða geta staðreynt hann fyrr en eftir að þau hafi fengið framangreinda matsgerð í hendur eða í nóvember 2021. Ágreiningslaust er að hjónin kvörtuðu við fyrirtækið vegna glugganna fyrir eða á árinu 2019 undan raka og starfsmaður þess hafi mætt en ekkert fundið sem skýrt gæti leka. Taldi dómarinn hjónin hafa sannað sök í málinu og að krafan væriekki fyrnd né fallin niður fyrir tómlætissakir. 

Var því fyrirtækið dæmt til að greiða hjónunum 1.627.855 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 21. desember 2021 til greiðsludags, auk 2.700.000 króna í málskostnað.

Seldu fasteignina áður en kom til málflutnings í Landsrétti

Dómur héraðsdóms féll 26. apríl 2023, og áfrýjaði fyrirtækið málinu til Landsréttar tæpum mánuði síðar og krafðist sýknu. Við munnlegan málflutning í september í ár upplýstu hjónin að þau hefðu selt fasteign sína til Fasteignafélagsins Þórkötlu ehf., en samkvæmt yfirlýsingu fasteignafélagsins stóð skaðabótakrafan sem hér er deilt um utan kaupa félagsins á fasteign hjónanna.

Dómarar Landsréttar töldu líkt og dómari héraðsdóms ljóst að hjónin hefðu orðið fyrir tjóni vegna gallaðrar þjónustu fyrirtækisins  að því er varðar sex glugga og eina svalahurð, sem fyrirtækið sá um að setja í húsið og hjónin létu skipta út í ágúst 2021. Að því er þá glugga og svalahurð varðar sagði dómurinn hjónin hafa tvígreitt fyrir ísetningu þeirra. 

Landsréttur sagði hins vegar liggja fyrir að á vesturhlið hússins eru tveir gluggar og ein svalahurð sem áfrýjandi setti í húsið á sínum tíma en samkvæmt gögnum málsins höfðu stefndu ekki skipt þeim út og orðið fyrir kostnaði af þeim völdum þegar þau afsöluðu fasteigninni til Fasteignafélagsins Þórkötlu ehf. síðastliðið sumar gegn greiðslu fulls söluverðs samkvæmt lögum nr. 16/2024. Að þessu virtu er ekki unnt að líta svo á að stefndu hafi orðið fyrir tjóni vegna gallaðrar þjónustu áfrýjanda við ísetningu þessara tveggja glugga og svalahurðar. 

Þótti því rétt að lækka umkrafðar skaðabætur til stefndu um 30% og var fyrirtækið dæmt til að greiða hjónunum 1.139.499 krónur með dráttarvöxtum frá 21. desember 2021 til greiðsludags. Þarf fyrirtækið jafnframt að greiða hjónunum 1,3 milljónir króna vegna málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt