Lokaumferð Bestu deildar kvenna fer fram á laugardaginn þegar seinustu þrír leikirnir í efri hlutanum verða leiknir.
Eðlilega verður spennan mest á N1 vellinum að Hlíðarenda þar sem Valur tekur á móti Breiðabliki í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem Breiðabliki dugar jafntefli, en Valur verður að vinna.
Breiðablik hefur 18 sinnum orðið Íslandsmeistari en Valur er með 13 titla.
Valur hefur orðið Íslandsmeistari fjórum sinum í röð en Breiðablik vann síðast árið 2018.
Sama dag mætast annars vegar Þór/KA og Víkingur R. á Greifavellinum á Akureyri, hins vegar FH og Þróttur R. í Kaplakrika í Hafnarfirði, og hefjast þeir leikir kl. 14:00. Úrslitaleikur Vals og Breiðabliks hefst hins vegar kl. 16:15.