Amber, sem er búsett í Wisconsin í Bandaríkjunum, starfar í dag sem heilsuráðgjafi og til marks um vinsældir hennar má geta þess að fylgjendur hennar á TikTok eru tæplega milljón talsins.
Í myndbandi sem hún birti í vikunni varpar hún ljósi á hvaða fórnir hún þurfti að færa til að ná þessum árangri og viðhalda honum sem er kannski það sem mestu skiptir.
Nefnir hún að nær allur matur sem hún innbyrðir sé heimatilbúinn, hún heldur sig frá sykruðum drykkjum, passar að skammtastærðirnar séu réttar og setur sér raunhæf markmið um hreyfingu á degi hverjum.
1. Undirbýr nær allar máltíðir sjálf
Amber segir að hún reyni að borða aldrei meira en tvær máltíðir í viku sem hún undirbýr ekki sjálf. Matur á veitingastöðum eigi það nefnilega til að innihalda meiri fitu og salt, fleiri hitaeiningar og minni trefjar og næringarefni en matur sem þú getur gert heima hjá þér. Skammtarnir á veitingastöðum séu líka oft á tíðum mjög stórir og það geti sett strik í reikninginn.
2. Sykurlausir drykkir
Amber segist hafa skipt út sykruðum drykkjum fyrir sykurlausa drykki og hún hafi haldið sig við það. Hún bendir þó að sykurlausir gosdrykkir séu engin hollustuvara og í raun eigi að umgangast þá eins og um sykraða gosdrykki sé að ræða. En það er hægt að fá sér ýmislegt annað en sykrað eða sykurlaust gos með sætuefnum. Til dæmis vatn, ósætt íste, kókosvatn og grænmetissafa.
3. Passaðu skammtastærðirnar
Það getur verið freistandi þegar maður vill „leyfa sér smá“ að tína til dæmis upp í sig úr heilum snakkpoka og nota einhverja góða ídýfu með. Amber mælir með því að fólk kaupi sér frekar tilbúna skammta (e. pre-portioned snacks) og haldi sig við þá. Þannig minnki hættan á því að þú innbyrðir of margar hitaeiningar.
4. Pældu í hitaeiningunum
Amber pælir mikið í því hversu margar hitaeiningar hún innbyrðir yfir daginn. Lykilinn að því að léttast og viðhalda þyngdartapi er að innbyrða færri hitaeiningar en líkaminn notar. Hún segir að mikilvægt sé að pæla í öllu sem maður borðar og kannski sérstaklega ef maður fær sér sætan eftirrétt.
5. Markmið um hreyfingu
Hreyfing skiptir auðvitað miklu máli og sjálf setur Amber sér markmið um að taka ákveðinn fjölda skrefa á hverjum degi. Sumir hafa haldið því fram að tíu þúsund skref á hverjum degi sé gott markmið en vísindamenn hafa reyndar bent á að ekki sé þörf á að taka svo mörg skref til að ná betri heilsu. Mikilvægast er þó að hver og einn setji sér raunhæft markmið með tilliti til aldurs, þyngdar og annarrar hreyfingar. Þeir sem eiga snjallúr geta fylgst tiltölulega auðveldlega með daglegum skrefafjölda.