Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, skrifar á Facebook að hér sé „djarft spilað og gengið út á ystu mörk skynseminnar“ og bætir við í samtali við mbl.is að Reykjanesskaginn sé allur að vakna, þar með talið Krýsuvíkursvæðið sem er næst Hvassahrauninu. Sama hvernig litið sé á stöðuna sé þetta vandræðasvæði. „Þetta er ekki staðurinn“, segir Haraldur og segir óskynsamlegt að reisa annan flugvöll á virku gossvæði.
Jarðeðlisfræðingurinn Ari Trausti Guðmundsson, skrifar á Facebook að hann sé „alls ekki sannfærður um gagnsemi flugvallar mitt í hraunbreiðum Reykjanesskagans og 5-10 km frá virku eldstöðvarkerfi, þrátt fyrir enn eina skýrsluna“.
„Mér finnst það mjög óábyrgt þegar við erum komin með þetta óróatímabil, sem nú er komið í gang, að taka sénsinn og byrja á tugmilljarða framkvæmdum þegar við höfum ekki glóru um hvernig þetta óróatímabil mun fara,“ segir Ari Trausti í samtali við mbl.is.
Sjá einnig: Ari Trausti segir eldgos ógna hugsanlegu flugvallarstæði í Hvassahrauni
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir í samtali við RÚV að fyrirhugað flugvallarsvæði sé ofan á hrauni og ef hraun hefur farið yfir svæðið einu sinni eru jafn miklar líkur á að það gerist aftur. „Vilt þú vera að lenda á flugvelli þar sem eldgos eru í gangi nokkra kílómetra frá með öllu sem því fylgir, bæði gasmengun og gjóskufalli jafnvel og síðan hraunflæði hringinn í kringum flugvöllinn, þó svo að þú sért að beina honum frá?“
Óskar Haraldsson er rekstrarhagfræðingur og áhugamaður um jarðfræði. Hann heldur meðal annars úti vefsíðunni eldgos.is. Hann skrifar á Facebook að það hafi kostað stjórnvöld 170 milljónir og tvö ár að komast að „vitlausustu niðurstöðunni sem var í boði“.
„Það tók tvö ár og kostaði 170 milljónir að komast að vitlausustu niðurstöðunni sem var í boði. Hvassahraun er í rennslisleið hrauna frá Krýsuvíkurkerfinu og gjósi þar, jafnvel þó það væri hægt að beina hrauninu frá flugvellinum, þá færi það líkast til yfir Reykjanesbrautina og lokaði því aðgengi að báðum flugvöllunum, Hvassahrauni og Keflavík! Líkur á þessu eru bara talsverðar á næstu áratugum því gostímabil er hafið þarna.
Svo er arfavitlaust að byggja varaflugvöll á milli Reykjavíkur og Keflavíkur jafnvel þó ekki væri eldgosahætta. Þetta er á sama veðurfarssvæðinu sem er galið. Það eru bara tveir raunhæfir möguleikar í stöðunni, að halda í Reykjavíkurflugvöll og styrkja hann, eða flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og styrkja þá frekar t.d. Egilsstaðaflugvöll sem raunhæfan varaflugvöll. Hvorutveggja mun ódýrari og skynsamari lausnir. “
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, fagnar þó skýrslunni og segir hana sýna að um eitt öruggasta svæðið á Reykjanesskaga sé að ræða. Hann skrifar á Facebok: „Það væri þó ábyrgðarhluti að afskrifa framtíð og framtíðarmöguleika á öllum Reykjanesskaganum nú og til framtíðar – hvað þá að óathuguðu máli – og mikilvægt að átta sig á að áhættan er mismikil á mismunandi svæðum og sum staðar afar litið.“
Dagur benti eins á að mat Veðurstofu Íslands á náttúruvá á svæðinu sé í góðu samræmi við mat Jarðfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var af Ármanni Höskuldssyni og Þorvaldi Þórðarsyni fyrir sveitarfélagið Voga og gefið var út í apríl 2022. Báðar skýrslurnar meti það svo að minni líkur séu á hraunflæði á svæðinu í Hvassahrauni sem er hugsað undir flugvöll heldur en yfir Reykjanesbrautina.
Degi er í athugasemd bent á að Þorvaldur Þórðarson tali með öðrum hætti í dag og að matið frá árinu 2022 hljóti að teljast úrelt í ljósi þeirrar atburðarásar sem hefur átt sér stað síðan. Dagur benti á að nefndin hafi sent Veðurstofu Íslands spurningar í maí á þessu ári í ljósi nýliðinna og þá yfirstandandi eldsumbrota og Veðurstofa Íslands hafi ekki séð ástæðu til að ætla að fyrra mat ætti ekki lengur við rök að styðjast.
Hættumat Veðurstofu Íslands er frá maí 2023, en þar má finna eftirfarandi í samantekt:
„Færa má rök fyrir því að hverfandi líkur séu á að innan athugunarsvæðisins opnist gosop, enda er það staðsett á norðanverðum Reykjanesskaga þar sem engin gosop eru þekkt. Engu að
síður eru innan við 2 km frá útmörkum athugunarsvæðisins að þekktum gosupptakasvæðum innan eldstöðvakerfis Krýsuvíkur og innan við 5 km að Trölladyngju sem er talin vera líklegt gosupptakasvæði enda er þar töluvert magn þekktra gíga og gossprungna. Eigi gos sér stað á þessu svæði benda niðurstöður til þess að líklegt sé að hluti athugunarsvæðisins verði fyrir hrauni. Hversu víðtæk áhrif hraun hefur stjórnast af stærð þess. Ólíklegt er að hraun renni yfir Reykjanesbrautina á þessu svæði en það er þó ekki útilokað.“
„Líklegast er að gasmengun valdi ekki miklum usla á athugunarsvæðinu þó að gasmengunarhermanir sýni að þær aðstæður geti skapast að loftgæði verði mjög óholl af völdum SO2 og jafnvel að gasstyrkur fari langt yfir hættumörk. Veður hefur mikil áhrif á hve mikillar mengunar verður vart og hvar. Vindur flytur gas frá upptökum og mestu gasmengunar, utan gosstöðvanna sjálfra, getur orðið vart fjærri upptökum. Miðað við þær sviðsmyndir sem hermdar hafa verið stafar mestri vá af gosi með mikið flæði SO2 frá Brennisteinsfjöllum og gosi með meðalflæði sem myndar lágan gosmökk á eldstöðvakerfi Krýsuvíkur.“
Rætt var um skýrsluna á fundi borgarráðs í gær. Þar lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks fram bókun þar sem þeir telja nokkuð ljóst að flugvöllur muni ekki rísa í Hvassahrauni á næstu árum.
„Þó náttúruvárrannsóknir leiði í ljós að hverfandi líkur séu á eldsupptökum innan flugvallarsvæðis, eru nokkrar líkur á hraunrennsli inn á svæðið. Hvassahraun stendur á virku eldfjallasvæði og ólíklegt að nokkur innviðafjárfestingasjóður myndi leggja verkefninu til þá milljarða sem þarf til uppbyggingarinnar. Það er tímabært að horfast í augu við þann veruleika að Reykjavíkurflugvöllur mun ekki víkja úr Vatnsmýri á næstu árum og áform meirihlutans um uppbyggingu 7.500 íbúða á flugvallarsvæðinu fyrir 2040 eru lítið annað en óskhyggja.“
Flokkur fólksins lagði eins fram bókun þar sem sagði að sérfræðingar hafi bent á að þó að líkur á hraunflæði yfir flugvallarsvæðið séu hverfandi, þá eru þær þó einhverjar og þá einkum ef Krýsuvíkursvæðið verður virkt.
Vinstri Græn bókuðu að mögulega væri kominn tími til að skoða að sameina innanlandsflugið í Reykjavík við alþjóðaflugið i Keflavík og í staðinn fyrir nýjan völl ráðast í samgöngubætur til að tryggja skilvirkar almenningssamgöngur frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur.
Borgarfulltrúi Pírata, Alexandra Briem, telur að niðurstaða skýrslunnar sé skýr um möguleikann á innanlandsflugi í Hvassahrauni. Ekkert í veðurfarsathugun eða könnun á eldgoshættu slái staðsetninguna af borðinu.