Eins og DV og fleiri fjölmiðlar greindu frá í morgun hefur verið lokað fyrir aðgang Samgöngustofu að sjúkraskrám eftir að Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að slíkt væri í trássi við lög sem og vinnsla fyrrnefndu stofnunarinnar á upplýsingum úr sjúkraskrám. Í tilkynningu frá Samgöngustofu segir að aðgangurinn hafi verið og sé nauðsynlegur til að gæta að flugöryggi og aðeins trúnaðarlæknir hafi hingað til haft þennan aðgang.
Í tilkynningunni segir að í ljósi nýlegrar umfjöllunar fjölmiðla um aðgang Samgöngustofu að sjúkraskrám, vilji stofnunin koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:
„Aðeins yfirlæknir flugsviðs Samgöngustofu hefur aðgang að sjúkraskrám og engir aðrir starfsmenn stofnunarinnar hafa haft eða hafa slíkan aðgang. Yfirlæknir flugsviðs Samgöngustofu vinnur eftir ströngum verklagsreglum og tilgangur skoðana í sjúkraskrá er að leggja mat á heilsufarsgögn umsækjanda um heilbrigðisvottorð fyrir flugliða og flugumferðarstjóra sem og læknaskýrslur fyrir öryggis- og þjónustuliða. Mikilvægt er að yfirlæknir hafi nauðsynleg gögn til þess að leggja mat á heilbrigði umsækjanda um heilbrigðisvottorð, um er að ræða mikilvægt flugöryggismál og mjög strangar kröfur gilda um heilbrigði flugliða, flugumferðarstjóra og þjónustu- og öryggisliða.“