„Ég tók þessar myndir kl. 14:25, er ég fór framhjá sá ég rosalega þykkan reykjarmökk, þegar nær kom sá ég bíl úti í kanti,“ segir Teitur Þorkelsson í samtali við DV en hann tók meðfylgjandi myndir af brennandi bíl á Reykjanesbrautinni. Um er að ræða Dacia Logan, árgerð 2018, frá bílaleigunni Icerental 4×4 ehf.
„Hann var kominn út í kant og skíðlogaði í vélinni og var kviknað í dekkjunum. Mikill reykur af því,“ segir Teitur.
Viðbragðsaðila bar að um leið og Teitur náði myndum sínum:
„Þetta er við afleggjarann að Keili. Rétt þegar ég kom að þessu þá kemur ómerktur lögreglubíll og leggur þvert á götuna til að stöðva umferðina framhjá. Þetta getur náttúrulega sprungið í loft upp. Á mjög heppilegum stað því hægt var að vísa umferðinni niður í hringtorgið þarna og svo aftur upp úr því hinum megin.“
Teitur segist hafa séð fjórar manneskjur úti í hrauni skammt frá sem líklega hafi verið í bílnum, en bíllinn var mannlaus. „Ég sá fjórar manneskjur sitja fyrir utan veg, sátu bara þarna í hnipri úti í hrauni.“
RÚV greinir frá atvikinu. Kemur þar fram að búið er að loka Reykjanesbrautinnni til vesturs. Hjáleið er um Vatnsleysustrandarveg. Bjarney S. Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurnesjum, staðfestir að lögregla sé komin á vettvang.