Spænski framherjinn Alvaro Morata er ekkert sérstaklega sáttur með bæjarstjórann í bænum Corbetta rétt fyrir utan Mílanó á Ítalíu.
Morata gekk í raðir AC Milan í sumar og ákvað að flytja í bæinn Corbetta sem er rétt utan við borgina.
Komu Morata var fagnað til Corbetta og ákvað bæjarstjórinn þar að láta vita af komu hans. Það varð til þess að setið var um hús Morata.
Hann taldi sig ekki eiga neinn annan kost en að flytja burt enda taldi hann öryggi fjölskyldu sinnar ógnað.
„Herra. Bæjarstjóri, takk fyrir að virða ekki einkalíf mitt. Sem betur fer á ég enginn verðmæti,“ segir Morata reiður í skilaboðum á Instagram.
„Einu verðmætin sem ég á eru börnin mín og öryggi þeirra var ógnað vegna þess hvernig þú hagaðir þér.“
„ÉG taldi að bærinn myndi gefa mér ákveðið öryggi. Núna þarf ég hins vegar að flytja strax, takk fyrir að nota samfélagsmiðla til að ógna öryggi fólksins í bænum.“
Marco Ballarini er bæjarstjóri í Corbetta en þar búa 18 þúsund einstaklingar.