Aron Einar Gunnarsson mun ekki koma til móts við íslenska landsliðið í næstu viku eins og vonir stóðu til um. Aron samdi við Al-Gharafa í Katar á dögunum.
Aron lék sinn fyrsta leik með Al-Gharafa á þriðjudag í Meistaradeildinni í Asíu en þar meiddist hann lítillega.
Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands hafði ætlað að velja Aron í hópinn fyrir leiki gegn Wales og Tyrklandi í Þjóðadeildinni.
Á fréttamannafundi í gær sagði Hareide að Aron væri á leið í myndatöku og það færi eftir því hvað kæmi úr henni hvort Aron kæmi inn í hópinn.
Aron staðfestir í samtali við 433.is að hann sé lítillega tognaður aftan í læri og verði frá í tvær vikur. Hann komi því ekki inn í hópinn eins og vonir stóðu til um.
Búist er við að Hareide kalli í Júlíus Magnússon miðjumaður Fredrikstad í Noregi komi inn í hópinn en Hareide vill hafa 24 manna hóp fyrir leikina tvo.