Íbúar í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun til að verja græn svæði fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu. Segja íbúarnir þegar skort á grænum svæðum fyrir íþróttir, heilsueflingu og útvisti.
„Á undanförnum árum hefur þétting byggðar verið mikil í Innri-Njarðvík sem því miður hefur bitnað á opnu svæðunum okkar,“ segir í færslu með undirskriftasöfnuninni sem var komið af stað á vefsíðunni island.is í dag.
Þegar hafa 88 skrifað undir en undirskriftasöfnunin er opin til 2. janúar á næst ári.
Kemur fram að á fundi umhverfis- og skipulagsráðs sveitarfélagsins þann 7. júní síðastliðinn hafi komið fram tillaga að nýju aðalskipulagi. Í henni komi fram áform um að setja íbúðarhverfi á svæði sem hingað til hafi verið merkt sem græn.
„Við íbúar í Innri-Njarðvík förum fram á það að opnu svæðin verði það áfram og þau skipulögð með hagsmuni okkar íbúa svæðisins í huga,“ segir í færslunni. „Hér er um að ræða stór óafturkræf mistök sem við krefjumst endurskoðunar á. Hér er nú þegar skortur á fjölbreyttum grænum svæðum fyrir íþróttir, heilsueflingu og útivist. Við hvetjum alla sem vilja koma í veg fyrir að þetta umhverfisslys verði að veruleika að skrifa undir.“
Hægt er að skrifa undir hér.