Fyrrverandi eiginmaður Gisele, Dominique, er ákærður fyrir að hafa byrlað henni ólyfjan og boðið svo ókunnugum körlum heim til þeirra hjóna í þeim tilgangi að nauðga Gisele. Hann hefur játað sök í málinu en aðrir hinna ákærðu hafa ýmist játað eða neitað sök og borið fyrir sig að þeir hafi ekki vitað að Gisele væri rænulaus þegar brotin fóru fram.
Adrien Longerot bar vitni í málinu í gær en fyrir dómi kom fram að hann hafi byrjað að „hata konur“ eftir að hann komst að því að hann væri ekki faðir dóttur sinnar.
Fyrir dómi voru skýrslur sálfræðinga og lækna meðal annars lagðar fram en í þeim sagðist hann bera hatur í brjósti til kvenna.
Þegar hann var 18 ára varð kærasta hans, hin 16 ára gamla Marine, ólétt og mun Adrien hafa talið sig vera föðurinn. Parið vildi fara í fóstureyðingu en í kjölfar þrýstings frá fjölskyldum þeirra beggja gerðist það aldrei og kom stúlka að nafni Ninon í heiminn árið 2009.
Það var svo þremur árum síðar að Adrien gekkst undir faðernispróf að í ljós kom að hann var ekki faðir stúlkunnar. „Eftir það byrjaði ég að hata konur almennt,“ sagði hann.
Sálfræðingurinn Joelle Palma sagði að Adrien væri dæmigerður „narsissisti“ með „stjórnlausa“ kynhvöt og hann hafi byrjað að stunda kynlíf með fjölda kvenna, jafnvel miklu eldri konum og beita þær ofbeldi.
Adrien var í hópi þeirra fyrstu sem mættu á heimili Pelicot-hjónanna til að brjóta á Gisele en það gerðist fyrst árið 2014 þegar hann var 24 ára. Á þessum tíma var hann í sambandi með konu, Stephanie að nafni, og eignaðist hún son þeirra aðeins tíu dögum eftir að Adrien braut gegn Gisele. Hann beitti Stephanie fólskulegu ofbeldi meðan á sambandinu stóð og raunar fleiri fyrrverandi kærustur.
Í fyrra var hann dæmdur í átján ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað þremur fyrrverandi kærustum sínum ítrekað. Adrien og aðrir hinna ákærðu í málinu eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi verði þeir fundir sekir í málinu. Réttarhöldin standa enn yfir en búist er við því að dómur falli í desember.