Það er ótrúlega auðvelt að eiga við myndir og meira að segja myndbönd. Svo kallaðir „filterar“ verða raunverulegri með hverjum deginum og eru mjög einfaldir í notkun, síðan eru það forrit eins og Facetune sem er hægt að hlaða í símann. Í því er hægt að slétta húðina, hvítta tennur og minnka mitti á örfáum mínútum.
Pálína var gestur í Fókus, hlaðvarpsþætti DV. Hún er eigandi snyrtistofunnar Eden og netverslunarinnar La Belle Beauty. Hún nýtur einnig vinsælda á Instagram en hefur sankað að sér stórum og dyggum fylgjendahóp fyrir að koma til dyranna eins og hún er klædd og ræða einlægt um erfið málefni.
Hægt er að horfa á brot úr þættinum hér að neðan. Þáttinn í heild sinni má horfa á hér, einnig er hægt að hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Pálína segir að það sé mikilvægt að ræða um þetta en hún skilur af hverju fólk gerir þetta, fyrir nokkrum árum breytti hún myndum af sér fyrir samfélagsmiðla. Hún breytti aldrei líkamanum en slétti húðina í andlitinu og hvíttaði tennur og augu.
„Þetta var líka á þeim tíma sem ég var á þessari maníu,“ segir hún. Hún ræddi um þann tíma fyrr í þættinum, sem má hlusta í heild sinni á Spotify.
„[Á þessum tíma] voru allir að þessu. Ég sá allar flottustu makeup gellurnar og hugsaði: „Hvernig í fjandanum ná þær að hafa húðina svona?“ Þegar þú tekur mynd þá getur ekki húðin verið svona. Svo var þetta einhvern veginn normið, þetta var bara gert.“
Vinur Pálínu endaði með að tala við hana um málið. „Besti vinur minn sagði: „Pálína, hvað er að nefinu þínu?““ segir hún og hlær.
„Svo hætti ég þessu og fór að opna augun og sjá að þetta væri bara svolítið skrýtið,“ segir hún og bætir við að það hafi líka hjálpað að á þessum tíma var henni farið að líða betur í eigin skinni.
Pálína segir að það geti verið mjög skaðlegt fyrir konur að sjá svona myndir á netinu.
„Þær gera ekki einu sinni grein fyrir því hversu mikið er hægt að gera, því núna er hægt að gera þetta í myndböndum. Maður stólaði alltaf á að myndböndin væru raunveruleg […] en í dag er ekkert mál að grenna þig og búa til eitthvað mitti og [filterinn] bara fylgir þér [um í myndbandinu]. Þú getur slétt andlitið og allt,“ segir hún.
„Þetta er mjög hættulegt og fyrir ungar stelpur er þetta enn hættulegra, að mínu mati.“
Brot úr þættinum þar sem Pálína ræðir þetta nánar má horfa á hér að ofan. Smelltu hér til að horfa á þáttinn í heild sinni eða hlustaðu á Spotify.