Frosti Sigurjónsson, frumkvöðull og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fer hörðum orðum um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, í viðtali við Frosta Logason á hlaðvarðsveitunni Brotkast.
Frosti er óánægður með framgöngu Þórdísar í tengslum við Úkraínu-stríðið og segir hana hafa tryggt okkur merkta eldflaug frá Rússum ef til kjarnorkustríðs kemur:
„Ísland gerði alveg gríðarleg mistök, varð fyrsta landið og eina landið til að loka sendiráði sínu í Rússlandi, og það var okkar utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún…Ég held að það eina sem hún fær út úr þessu sé að við fáum númeraða eldflaug á okkur, kjarnorkuflaug sko.“
Frosti segist gruna Þórdísi um að hafa þarna unnið verk fyrir Nató. „Við þurfum að reka okkar sjálfstæðu utanríkisstefnu, við getum ekki verið að breytast úr friðelskandi þjóð sem að vill í raun og veru… við höfum alveg frá örófi alda lýst yfir hlutleysi í þessum átökum.“
Frosti segir að ákvörðun Þórdísar jaðri við landráð. „Hún er að vinna gegn hagsmunum okkar og draga okkur inn í stríð. Það er landráð. Það er bannað samkvæmt lögunum. Þetta er einn versti utanríkisráðherra sem við höfum haft, að mínu mati. Alveg ævintýrlega slæmur. Hún samþykkti líka sem ráðherra að við mynum ekki biðja um neina undanþágu frá álögum á eldsneyti skipa og flugvéla sem hér millilenda. Eina sem gerist er að flugið færist bara til Bretlands. Við hættum að vera millilendingarstaður.“
Auk þess hafi hún leyft vopnakaup fyrir Úkraínu og millilendingar með tilraunadýr. Frosti segir Þórdísi taka afar vondar ákvaðanir sem séu skaðlegar hagmunum Íslands. „Síðan leggur hún fram bókun 35 til að kóróna sköpunarverkið. Þessi bókun 35 er búin að vera þyrnir í augum Evrópusambandsins. Þegar við göngum inn í Evrópska efnahagssvæðið þá er skrifað undir samning um að íslensk lög gildi á Íslandi. Evrópsk í Evrópu. Og hér þurfi öll lög að vera sett á Alþingi. Þetta er búið að pirra Evrópusambandið í vaxandi mæli síðustu ár. Þetta er búið að vera í 30 ár. Á Íslandi er það þingið sem setur lögin en ekki ESB. Í raun er verið að ganga á bak orða sinna og brjóta samninginn sem var forsenda fyrir inngöngu okkar inn [í EES – innskot DV]. Og hún er verkfærið. Hún er að leggja fram frumvarp um að lög sem eru sett í Evrópusambandinu séu rétthærri íslensku lögunum. Afleiðingarnar af þessu eru ófyrirsjáanlegar.“