Gardner er lamaður fyrir neðan mitti og notast við hjólastól en engin slík hjálpartæki er að finna um borð í flugvélum pólska flugfélagsins.
Færsla sem Frank birti á X, áður Twitter, hefur vakið talsverða athygli en með henni fylgir mynd sem sýnir hann liggja á gólfi vélarinnar.
Gardner lamaðist árið 2004 þegar hann var skotinn af liðsmönnum al-Qaeda í Sádí-Arabíu.
„Vá. Það er 2024 og ég var að skríða eftir gólfinu í vél LOT Polish airline til að komast á klósettið,“ sagði hann í færslu sinni og bætti við að hann hefði fengið þau svör frá starfsfólki um borð að það væri ekki í „stefnu flugfélagsins“ að bjóða upp á hjólastóla fyrir fatlaða farþega.
Gardner var á leið frá Varsjá til London þegar hann þurfti skyndilega að fara á klósettið. Gaf hann sig á tal við starfsfólk sem tjáði honum að engir hjólastólar væru í boði. Hann sá því þann kost vænstan að skríða á klósettið sem hann og gerði.
Bætti hann við að starfsfólk um borð hefði verið mjög vingjarnlegt og ekkert væri við þá að sakast en flugfélagið þurfi að endurskoða þessa stefnu sína. „Ég mun ekki fljúga með LOT fyrr en þeir koma sér inn á 21. öldina,“ sagði hann.
Gardner mætti svo í BBC Breakfast í morgun þar sem hann ræddi málið nánar. Benti hann á að það væri ekki flókið mál að bjóða upp á hjólastóla eða sambærileg hjálpartæki til að létta hreyfihömluðum farþegum lífið. „Það eru til stólar sem hægt er að brjóta saman og taka lítið sem ekkert pláss,“ sagði hann meðal annars.
Wow. It’s 2024 and I’ve just had to crawl along the floor of this LOT Polish airline to get to the toilet during a flight back from Warsaw as “we don’t have onboard wheelchairs. It’s airline policy”. If you’re disabled and you can’t walk this is just discriminatory. pic.twitter.com/aFuxo89DR5
— Frank Gardner (@FrankRGardner) September 30, 2024