fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Bróðir Lúðvíks Péturssonar segir mörgu ósvarað í skýrslu um slysið hræðilega í Grindavík – Verkið ekki áhættunnar virði

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 1. október 2024 11:30

Elías vill heildstæða rannsókn á slysinu sem bróðir hans Lúðvík lenti í.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt skýrslu Vinnueftirlitsins lá ekki fyrir fullnægjandi áhættumat þegar vinna við sprungufyllingar byrjaði í Grindavík á síðasta ári. Maður að nafni Lúðvík Pétursson féll þá ofan í sprungu og fannst aldrei. Bróðir Lúðvíks segir ýmislegt vanta í skýrsluna en hún styðji ósk fjölskyldunnar um rannsókn.

„Út er komin skýrsla Vinnueftirlitsins vegna slyssins í Grindavík hvar Lúlli bróðir lét líf sitt,“ segir Elías Pétursson, bróðir Lúðvíks og fyrrverandi bæjarstjóri í Fjallabyggð, í færslu á samfélagsmiðlum. „Skýrslan er um margt góð að mínu mati, en umfjöllunin takmarkast þó að mestu um aðkomu Verkfræðistofunnar EFLU og verktakans á svæðinu. Skýrslan fjallar því hvorki um þátt Almannavarna, lögreglu né aðkomu Náttúruhamfaratryggingar Íslands.“

Fjallað var um skýrsluna í frétt RÚV í morgun. Í skýrslunni kemur fram að verktakar hafi upplifað óreiðukennt skipulag við verkefnið og að þeir færu á milli verka eftir beiðnum frá mismunandi aðilum. Verkstjórn væri óskýr og komið hefði fyrir að fólk væri að sinna nokkrum verkefnum undir mismunandi verkstjórn samtímis.

Sérfræðingar Eflu höfðu efasemdir um fallvarnarbúnað

Lúðvík var að vinna ásamt öðrum manni við sprungufyllingu þann 10. janúar á þessu ári. Samstarfsfélagi hans skrapp frá en þegar hann kom til baka hafði Lúðvík fallið ofan í sprunguna sem var 40 metra djúp. Leit var hætt 12. janúar og Lúðvík úrskurðaður látinn.

Í skýrslunni kemur fram að mennirnir tveir hvoru að klára tveggja daga verk og aðeins yfirborðsþjöppun eftir. Kemur fram að Lúðvík hafi þurft að vinna með lausa þjöppu á fyllingunni því að ekki hafi verið unnt að vinna með svokallaðan víbrósleða sem hafði bilað deginum áður.

Hafi verkfræðistofunni verið kunnugt um bilunina en ekki vitað að til stæði að nota lausa þjöppu. Skyndilega hafi jörðin opnast undir Lúðvíki við störf.

Sjá einnig:

Vilja rannsókn á hvarfi Lúðvíks  

Einnig segir að fallvarnarbúnaður hefði ekki verið notaður. Sérfræðingar verkfræðistofunnar Eflu hefðu haft efasemdir um að slíkur búnaður, það er ein lína, myndi duga.

Fullnægjandi áhættumat lá ekki fyrir en Vinnueftirlitið telur að verkfræðistofan hefði átt að láta framkvæma slíkt mat. Ekki sé vitað hvernig kynningu á hættum staðarins hafi verið miðlað til starfsmanna.

Ekki áhættunnar virði

Í færslu sinni segir Elías að skýrslan undirbyggi og styðji við þá ósk fjölskyldunnar að Alþingi eða dómsmálaráðherra láti fara fram heildstæða rannsókn á öllum þáttum slyssins. Það er aðdragandanum, slysinu sjálfu og eftirleiknum.

„Engin rök standa lengur til þess að fresta ákvörðun um rannsókn á málinu,“ segir Elías. „Einungis þannig getum við dregið raunverulegan lærdóm af slysinu.“

Vísar hann í lokaorð skýrslunnar þar sem segir:

„Þegar verk eru áhættumetin þá ætti fyrsta spurningin alltaf að vera hvort algjörlega nauðsynlegt sé að framkvæma tiltekið verk sem hefur hættu í för með sér. Í ljósi aðstæðna í Grindavík, þar sem atburðarás í tengslum við náttúruhamfarir var enn í gangi, má velta upp hvort þetta tiltekna verk hafi verið áhættunnar virði.“

Segir Elías að þessari kjarnaspurningu sé ekki svarað með beinum hætti. Aðstandendur Lúðvíks telji að verkið hafi ekki verið áhættunnar virði.

„Það eru fleiri spurningar sem við teljum nauðsynlegt að svara. Til að mynda hvaða skipulag ríkti, hvernig var það framkvæmt meðan hættuástand ríkti á svæðinu? Hver fór raunverulega með stjórn og reglusetningu meðan hættuástandi varði? Hver hafði eftirlit með framkvæmd þess? Þá er ofur eðlilegt að spurt sé hvaða ákvarðanir voru teknar varðandi aðgengi, framkvæmdir, ofl., sem síðar leiddu til slyssins,“ segir Elías. „Allt eru þetta grundvallarspurningar sem verður að leita svara við og draga lærdóm af svörum. Annað er óásættanlegt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu