Kristján Óli Sigurðssonn sparkspekingur Þungavigtarinnar kennir Jóhanni Inga Jónssyni dómara um að HK hafi tapað gegn Vestra á sunnudag. Hann saka Jóhann um að hafa verið hræddan við Samúel Samúelsson formann Vestra og Davíð Smára Lamude þjálfara liðsins.
Vestri vann 2-1 sigur í leiknum og með honum komst liðið upp úr fallsæti og setti HK í slæma stöðu í fallbaráttunni þegar þrír leikir eru eftir.
„Jóhann Ingi Jónsson drullar í brækurnar, Arnþór Ari skallar boltann sem fer í hendina á leikmanni Vestra og ekkert dæmt. Ótrúlegt ákvörðun, þetta er ekkert annað en hræðsla við Davíð og Samma. Ekkert annað, þetta er rándýrt í svona leikjum,“ sagði Kristján í Þungavigtinni.
„Svo var seinna markið, þar er brot. Þar rífur leikmaður Vestra í Birni, stóru ákvarðanir féllu með Vestra. Ég sá ekki story eða Twitt frá Samma um dómgæslu í gær, hann grjótheldur kjafti núna.“
Mikael Nikulásson taldi að Kristján Óli væri á villigötum með þessum ummælum sínum. „Þeir voru miklu betra lið, það var ekki dómaranum að kenna að Vestri tók þrjú stig. Vestri var miklu betra lið í leiknum. Það er magnað að hlusta á Stjána væla yfir dómaraákvörðunum í þessum leik. Þetta var 50/50 í seinna markinu, þetta var ekkert augljóst brot.“
„HK-ingar voru ekkert að kvarta, Stjáni er sá eini sem er að kvarta og síðast þegar ég vissi var hann Bliki.“