fbpx
Mánudagur 30.september 2024
Fréttir

Meiðyrðamál á hendur geðlækni fer ekki fyrir Hæstarétt – Ómerking fjögurra ummæla stendur

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 30. september 2024 17:30

Ummæli um föður drengs voru dæmd ómerk.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur hefur synjað geðlækninum Önnu Maríu Jónsdóttur um áfrýjunarleyfi. Ummæli hennar í læknisvottorði voru dæmd ómerk á lægri dómstigum og hún dæmd skaðabótaskyld vegna þeirra. Rétturinn hafnaði einnig áfrýjunarleyfi feðga sem vildu fleiri ummæli ómerkt.

Byggt á einhliða frásögn

DV fjallaði ítarlega um málið á fyrri dómstigum, en það snerist um ummæli um föður drengs í læknisvottorðum sem rituð voru fyrir móðurina. Fimm ummæli voru kærð og í apríl árið 2023 voru þrjú þeirra ómerkt. Þau eru eftirfarandi:

„…seinni barnsfaðir hennar B hefur verið spilafíkill og D hefur búið við mikið andlegt, líkamlegt og tilfinningalegt ofbeldi frá hans hendi auk þess sem sonur þeirra hefur orðið fyrir miklu ofbeldi af hans hálfu … hann hefur haft í hótunum og verið ógnandi við hana og son þeirra.“

„Hann og móðir hans eru nú í Kvennaathvarfinu vegna ofbeldis sem þau hafa bæði þurft að þola af hendi föður hans. Barnið upplifir mjög mikinn ótta við föður sinn sem hefur margsinnis beitthann ofbeldi og hótað honum.“

„…undirrituð hef verið meðvituð um að D og sonur hennar og hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu barnsföður hennar, föður Cum árabil, en ógnandi hegðun hans hefur farið vaxandi undanfarin ár.“

Kom fram í dóminum að Anna hefði aldrei hitt föðurinn og byggt sitt mat á einhliða frásögn móðurinnar. Síðar hafi komið í ljós að ásakanirnar hafi ekki staðist og faðirinn fengið fulla forsjá drengsins.

Sagði að setja hefði átt fyrirvara um að fullyrðingarnar væru byggðar á frásögn móður og eftir atvikum drengsins. Framgangan hefði ekki verið í samræmi við lög um heilbrigðisstarfsmenn, það er varðar varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða. Var hún dæmdi til að greiða föðurnum 700 þúsund krónur í miskabætur og 1 milljón í málskostnað.

Miklar raunir feðga

Í Landsrétti voru ein ummæli til ómerkt. Það er:

„[F]aðir C  […] hefur ítrekað sýnt ógnandi og óttavekjandi hegðun gagnvart drengnum og móður hans.“

Sagt var í dómi Landsréttar að skýrlega mætti ráða af gögnum málsins að gagnaðilar, faðirinn og drengurinn, hefðu mátt þola miklar raunir vegna málsins. Skilyrði skorti hins vegar til þess að Anna yrði talin bera ábyrgð á 15 mánaða aðskilnaði feðganna eða að móðirin hefði tekið þá ákvörðun að yfirgefa sameiginlegt heimili þeirra þann 8. júlí árið 2017.

Varði alla lækna miklu

Í áfrýjunarleyfibeiðni sinni til Hæstaréttar sagði Anna að málið varðaði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar sem læknis og allra lækna sem þurfi að skrifa vottorð fyrir skjólstæðinga sína. Einnig hefði málið þýðingu fyrir dómsmál um aðild barna og mörk tómlætisáhrifa varðandi miskabótakröfur og ómerkingu ummæla.

Feðgarnir sóttu einnig um áfrýjun og vísuðu til þess að læknisvottorðin hefðu að geyma staðhæfingar langt um fram það sem læknar hefðu skynjað af eigin raun. Vottorðin hefðu verið skrifuð í þeim tilgangi að aðstoða móður við að halda barni frá föður sínum. Vottorð séu mikið notuð í dómsmálum og það varði miklu að tekið sé af skarið með ábyrgð lækna ef þeir votti um það sem þeir eru ekki bærir um.

Eins og áður segir hafnaði Hæstiréttur báðum beiðnunum. Taldi rétturinn málið ekki hafa almennt gildi eða varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni. Ekki sé heldur séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið sérlega ábótavant.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Roxette snúa aftur
Fréttir
Í gær

Grunaður fíkniefnasali handtekinn með mikið reiðufé á sér

Grunaður fíkniefnasali handtekinn með mikið reiðufé á sér
Fréttir
Í gær

Salvör skrifar opið bréf til Sigurðar Inga – „Hvers vegna er þetta leyfi­legt?“

Salvör skrifar opið bréf til Sigurðar Inga – „Hvers vegna er þetta leyfi­legt?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Andlega veikt fólk líklegra til þess að vera ekki bólusett gegn COVID-19

Andlega veikt fólk líklegra til þess að vera ekki bólusett gegn COVID-19
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ekki vitað hvað ferð Einars til Seattle mun kosta

Ekki vitað hvað ferð Einars til Seattle mun kosta