Live Science skýrir frá þessu og segir að í sumar hafi stórt svæði við miðbaug kólnað á methraða. Svæðið er nú að hitna á ný en vísindamenn klóra sér í höfðinu yfir kólnuninni og vita ekki hvað olli henni.
Svæðið sem um ræðir teygir sig nokkrar gráður norður og suður fyrir miðbaug. Það myndaðist snemma í júní eftir margra mánaða methita yfirborðssjávar á svæðinu en hann hafði ekki mælst hærri í 40 ár.
Franz Tuchen, nýdoktor við University of Miami í Flórída, sagði í samtali við Live Science að svæðið sé þekkt fyrir að sveiflast frá köldu yfir heitt á nokkurra ára fresti en það hversu hröð kólnunin var í sumar hafi komið mjög á óvart og slíkur hraði hafi ekki sést áður.
„Við erum enn að klóra okkur í höfðinu yfir því sem er að gerast,“ sagði Michael McPhaden, hjá National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA), í samtali við Live Science. Hann sagði einnig að hugsanlega hafi verið um skammvinnan atburð að ræða sem eigi upptök sín í ferlum sem við skiljum ekki.