fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Eyjan
Sunnudaginn 29. september 2024 13:50

Mósaíklagnir er ævaforn iðngrein. Mynd sem sýnir Ódysseif konung bundinn við siglutréð til að verjast söng sírenanna. Myndin er frá Karþagó, gerð á annarri öld eftir Kristburð. Varðveitt á Bardo Museum í Túnis.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í liðinni viku fagnaði Bernhöftsbakarí, elsta fyrirtæki landsins, 190 ára afmæli. Af því tilefni birtist í Morgunblaðinu fróðlegt viðtal við manninn á bakvið fyrirtækið, Sigurð Má Guðjónsson, bakara- og kökugerðarmeistara, þar sem hann hafði orð á því hversu stórkostlegt það væri að búa yfir fagþekkingu og kunna að nýta hráefni sem náttúran gæfi af sér til að framleiða matvöru.

Hér er vel að orði komist en Sigurður Már er sömuleiðis formaður Landssambands bakarameistara og lýsti því í viðtalinu að nemum í iðninni hefði fjölgað stöðugt undanfarin ár, tvöfalt fleiri hefðu þreytt sveinspróf í bakaraiðn nú í ár en í fyrra og þá væru nokkrir Íslendingar við nám í kökugerð í Danmörku.

Að varðveita kunnáttuna

Sigurður Már hefur um langt árabil verið ötull talsmaður fagþekkingar í iðnaði, bent á mikilvægi löggildingar iðngreina og hörmulegar afleiðingar fúsks. Hann telur rétt að fjölga löggiltum iðngreinum og efla sérhæfða fagþekkingu fremur en að afnema löggildingu líkt og gert hefur verið.

Til þess eru vítin að varast þau. Flísa- og mósaíklagnir er aldagömul iðngrein á meginlandi álfunnar en árið 2004 ákváðu þýsk stjórnvöld að afnema löggildingu greinarinnar og margra annarra. Rannsóknarstofnun við Háskólann í Göttingen sem og sambönd iðnaðarmanna fylgdust náið með þróun þeirra iðngreina sem ekki voru lengur löggiltar. Svo dæmi sé tekið af Erfurt og nágrenni þá fjölgaði fyrirtækjum í flísa- og mósaíklögn úr 226 í 1.232 á einum áratug en lærlingum í iðngreininni fækkaði á sama tíma, höfðu verið 54 þegar löggildingin var afnumin en voru aðeins 14 áratug síðar (og þeim átti síðan eftir að fækka enn frekar). Samt sem áður fengust miklu fleiri við iðnina en áður en fagþekking glataðist hratt og þeir hinir menntuðu áttu fullt í fangi með að lagfæra galla eftir fúskara. Að sama skapi stórfjölgaði gjaldþrotum í byggingariðnaði, svört atvinnustarfsemi jókst að mun og laun í greininni lækkuðu til langs tíma litið. Hnignun gamalgróinna iðngreina varð slík á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar að fyrir fjórum árum afréðu stjórnvöld í Þýskalandi að hverfa aftur til löggildingar margra þeirra iðngreina sem afnumdar höfðu verið 2004.

Sigurður Már er þýskmenntaður og hefur í ræðu og riti bent á að almannahagsmunir krefjist þess að fólk sem vinni sérhæfð störf hafi til að bera fagþekkingu svo tryggja megi gæði vinnunnar og einmitt þess vegna beri að leggja áherslu á löggildingu iðngreina. Mig langar að taka undir þetta, vandað handverk er afrakstur slíkrar innri menntunar að hún verður ekki numin nema með áralangri þrautþjálfun — á grundvelli fagþekkingar sem fylgt hefur mörgum kynslóðum. Löggilding kann í mörgum tilfellum að vera eina leiðin til að þekkingin varðveitist.

Skilningsleysi á gildi menntunar

Með Bernhöft bakara frá Suður-Jótlandi barst bakaraiðnin hingað til lands en þekking á ýmsu öðru handverki kom ekki fyrr en löngu síðar. Þorvaldur Guðmundsson, sem kenndur var við Síld og fisk, segir frá því í endurminningum sínum að íslenskur kjötiðnaður hafi verið á algjöru byrjendastigi þegar hann gerðist kjötkaupmaður árið 1944 og enginn skilningur á mikilvægi iðngreinarinnar. Félag kjötiðnaðarmanna fékk hingað til lands danska kennara í greininni og efndi til námskeiða. Loks voru fyrstu sveins- og meistarabréfin gefin út á árunum 1952–1953 og sjálfur var Þorvaldur í hópi þeirra sem fyrstir hlutu meistarabréf í iðninni hérlendis. Íslendingar höfðu þá slátrað gripum í ellefu hundruð ár — án þess að kunna til verka enda hafði kjöt sem flutt var héðan á erlendan markað gjarnan lent í lakasta flokki. Raunar lagðist Búnaðarþing gegn því árið 1949 að kjötiðnaður, mjólkuriðnaður og garðyrkja yrðu löggiltar iðngreinar, sem segir sitt um skilningsleysið.

Raunveruleg þekking er seintekin

Fyrst hér er minnst á iðnaðarmenn þá má í nýútkominni bók Árna Heimis Ingólfssonar, Tónum útlaganna, lesa um Karlakór iðnaðarmanna sem undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar flutti ýmis tónverk sem aldrei fyrr höfðu heyrst hér á landi. Vorið 1947 flutti kórinn óratoríuna Ödipus konung eftir Stavinskíj og kantötuna Uppruna eldsins eftir Sibelius. Áður hafði kórinn flutt Altrapsódíu eftir Brahms og fangakórinn úr Fídelíó, óperu Beethovens. Bók Árna Heimis fjallar um þrjá hámenntaða hljómlistarmenn sem flúðu Þýskaland nasismann og settust hér að, en auk Róberts Abrahams voru það Heinz Edelstein og Victor Urbancic. Þeir lyftu íslensku tónlistarlífi á æðra stig eins og flutningur Karlakórs iðnaðarmanna ber með sér. Á árum síðari heimsstyrjaldar var hvert meistaraverk tónbókmenntanna eftir annað flutt í fyrsta sinn hér á landi. Árni Heimir segir frá því í bókinni að undir stjórn Urbancic hafi Tónlistarfélagskórinn meðal annars flutt Messías Händels, Sálumessu Mozarts og Jóhannesarpassíu Bachs svo eitthvað sé nefnt. Aldagömul evrópsk hámenning var skyndilega hafin í æðra veldi á afskekktri eyju úti á Norður-Atlantshafi.

Sú hljómlist sem Róbert Abraham valdi kór reykvískra iðnaðarmanna var í meira lagi metnaðarfull, Ödipus konungur er til að mynda feikna flókið nútímaverk og engar hljóðritanir tiltækar til að styðjast við. Á sama hátt og hinir hámenntuðu erlendu hljómlistarmenn fluttu hingað út aldagamla menningu var sú verkmenning sem iðnaðarmennirnir í kórnum lögðu stund á tiltölulega nýkominn hingað til lands þrátt fyrir að eiga sér ævafornar rætur á meginlandinu.

Viska og þekking, hvort sem er til hugar eða handa er seintekin. Hún verður ekki hrist fram úr erminni, heldur er hún afrakstur þrotlausrar vinnu og hugsunar, árum og jafnvel áratugum saman — og í þekkingaröflun er byggt á reynslu kynslóðanna sem oft má rekja allt aftur til fornaldar. En á sama tíma og sönn þekking er seintekin þá kennir sagan okkur að niðurbrot menningar getur átt sér stað á undraskömmum tíma, jafnvel þannig að glæsileg menningarríki líði undir lok á fáeinum áratugum og verði ómennsku og skrílræði að bráð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo