Héraðssaksóknari hefur ákært ungan mann fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem framin var á Hafnartorgi sumarið 2021, en þá var hinn ákærði aðeins 16 ára.
Hinn ákærði er sagður hafa veist að brotaþola með ítrekuðum hnéspörkum í höfuð og búk, þar sem brotaþoli sat á grúfu á jörðinni, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut mar vinstra megin á gagnaugasvæði og yfir hægri kinnboga og mar á öxl og upphandlegg.
Héraðssaksóknari gerir kröfu um að hinn ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd brotaþola er gerð krafa um miskabætur upp á 700 þúsund krónur.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. október næstkomandi.