Skipulagsnefnd Garðabæjar hefur áhyggjur af því að ekkert er minnst á vatnsbólin norðaustan við Kleifarvatn í greiningarvinnu tengdu Coda Terminal í Hafnarfirði. Einnig telur nefndin að leita hefði átt umsagnar Garðabæjar við umhverfismat þar sem framkvæmdin hafi áhrif innan marka bæjarins.
Þetta kom fram í meðferð málsins á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar í gær, 26. september.
Mikið hefur verið fjallað um Coda Terminal, niðurdælingarverkefni Carbfix sunnan við Vallahverfið í Hafnarfirði. Stór hópur íbúa hefur barist gegn verkefninu og þrýst á um íbúakosningu. Hafa margir íbúar áhyggjur af raski grunnvatns og fleiru.
Á fundinum lét nefndin bóka að tekið væri undir atriði sem koma fram í umsögn Umhverfisstofnunar um málið, það er þann 29. ágúst. Í umsögninni segir að lítið sem ekkert hafi verið fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á yfirborðsvatnshlotið né grunnvatnshlotið Kleifarvatn þó svo að töluverðra áhrifa sé þar að vænta, eða eins meters hækkun grunnvatns. Ekki sé heldur gert grein fyrir áhrifum á grunnvatnshlotið Stór-Reykjavík eða yfirborðshlotið Vífilsstaðavatn.
„Skipulagsnefnd tekur undir þau atriði sem koma fram í umsögn Umhverfisstofnunar um að gera þurfi grein fyrir áhrifum á yfirborðsvatnshlotið og grunnvatnshlotið Kleifarvatn,“ segir í bókun nefndarinnar. „Nefndin minnir auk þess á að í greinargerð heildarendurskoðunar vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu eru tilgreindar niðurstöður úr greiningarvinnu Vatnaskila. Þar kemur m.a. fram að einn af framtíðarmöguleikum vatnsöflunar á höfuðborgarsvæðinu er í Fagradal norðaustan við Kleifarvatn en ekki verður séð að minnst sé á þann álitlega vatnstökustað, hvorki í umhverfismatsskýrslu né í umsögnum.“
Þar sem áhrif á grunnvatn séu metin óviss í umhverfismati vill nefndin passa upp á að vöktun og mótvægisaðgerðum verði framfylgt. Einnig að leita hefði átt umsagnar Garðabæjar við umhverfismatið. Hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar teygi sig inn fyrir bæjarmörk Garðabæjar.