Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að prestar Þjóðkirkjunnar láti af pólitískum áróðri og ennfremur vill hún að kirkjan opni aftur dyr sínar fyrir skólabörnum á aðventunni. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Ýmsir kirkjunnar þjónar stíga reglulega inn í umræðuna um málefni líðandi stundar. Fólk hefur jafnvel þurft að sitja undir pólitískum áróðri í sunnudagsmessum. Fólk sem sækir kirkjur til að iðka trú sína á heilögum stað og á að njóta til þess þjónustu sömu þjóna. Ég er þeirrar skoðunar að prestar og aðrir fyrirsvarsmenn kirkjunnar eigi að forðast að stíga inn í pólitísk deilumál og þrætur og taka afstöðu í þeim. Slíkt er enda til þess fallið að skapa sundrung meðal fylgismanna kirkjunnar og fjarlægð frá þeim sem deila ekki skoðunum eða sýn með viðkomandi,“ segir Diljá í grein sinni.
Hún segir boðskap kristninnar vera grunngildi samfélags okkar og hvetur Þjóðkirkjuna til að galopna kirkjudyr fyrir jólaheimsóknum barna á skólatíma. „Heimsóknum sem er rík hefð fyrir og við höfum hér flest fengið að njóta gegnum árin. Sannarlega hafa ekki allar sóknir hagað störfum sínum með þeim hætti að aflýsa heimsóknum, en skilaboð þeirra sem það hafa gert þykja mér miður.“
Diljá segir fráleitt að jólaheimsóknir skólabarna í kirkjur valdi sundrungu í samfélaginu, eins og sumir telja, og vill hún endurvekja þennan sið og telur aflagningu hans vera eftirgjöf gagnvart óumburðarlyndi:
„Einhverjum hefur þótt kirkjan vera að valda deilum eða togstreitu með því að bjóða íslenskum skólabörnum í heimsókn samkvæmt langri og fallegri hefð. Það er auðvitað fráleit eftirgjöf gagnvart óumburðarlyndi örfárra. Auk þess er það þá í það minnsta verðugra verkefni og samrýmist betur verkefnum kirkjunnar en pólitísk þrætuepli hverju sinni.“