Tælensk kona tapaði máli fyrir fyrrverandi vinnustað sínum, harðfiskvinnslu, eftir að hún skar sig illa á fingri. Hnífurinn fór í gegnum taug og segist konan fá óþægindi í höfði og fyrir hjarta vegna hans. Harðfiskvinnslan dregur heilsutjón konunnar í efa.
Slysið átti sér stað þann 21. nóvember árið 2019 þegar konan var að vinna hjá harðfisksölu í Reykjavík. Kemur fram í dóminum, sem féll í Héraðsdómi Reykjaness í gær 26. september, að konan skilji og tali litla íslensku.
Þegar hún var að gera að fiski skar hún sig á vísifingri vinstri handar svo blæddi. Umdeilt er hvort yfirmenn hafi sagt henni að fara heim eða halda áfram að vinna. Hún hélt því fram að henni hefði verið skipað að halda áfram. Engu að síður hélt konan áfram að vinna, eftir að búið hafði verið um sárið með plástri og kláraði vinnudaginn. Einnig mætti hún næsta dag til vinnu.
Konunni var sagt upp rúmum þremur árum síðar þegar tilkynnt var að harðfisksalan myndi hætta vinnslu. Annar aðili tók þá við rekstri félagsins.
Þann 5. desember árið 2019, tveimur vikum eftir slysið, fór konan á heilsugæslu vegna fingursins. Í sjúkraskrá kom fram að sárið væri gróið og engin sýkingarmerki á fingrinum. Hins vegar finndi konan til óþæginda fram í vísifingurinn. Hún gat hins vegar hreyft fingurinn og voru eymslin greind sem tognun af lækni.
Um einu og hálfu ári seinna kom konan aftur á heilsugæsluna. Það er 26. júlí árið 2021. Þá greindi hún frá því að hún hefði farið til Tælands og fengið að vita þar að taug hefði farið í sundur í fingrinum. Hún hefði fengið þar taugagræðandi lyf. Læknir fann hins vegar engin þreifieymsli og bæði skyn og hreyfigeta hafi verið eðlileg.
Nokkrum mánuðum síðar, þann 27. september árið 2021, leitaði konan til bæklunarlæknis sem fann fínlegt ör á fingrinum, eins sentimetra langt. Hann ómskoðaði fingurinn en fann engan aðskotahlut.
Konan lýsti hins vegar vefjaþykkildi sem erfitt væri að átta sig á við þreifingu. Í endurkomu til læknisins var gefið út áverkavottorð og konunni vísað á verkjadeild Landspítala.
Í skoðun hjá svæfingalækni á verkjadeild þann 22. desember 2021 kom fram að sárið væri vel gróið en konan gæti lítið beygt fingurinn og hann væri viðkvæmur fyrir snertingu og kulda. Verkir leiði upp í olnboga og þegar hún fái högg á hann fái hún verk upp í höfuð. Í upphafi árs 2022 sótti hún um sjúkrabætur og tjáði vinnustað sínum að henni væri ekki batnað í fingrinum.
Í matsgerð bæklunarlæknis frá 20. júlí árið 2023 kom fram að konan væri enn verkjuð í vinstri hendi með leiðni upp í olnboga. Fái fingurinn högg fái konan verk upp í hjarta og höfuð. Kuldaóþol sé einnig mikið. Hún geti ekki beygt fingurinn. Örorka sé metin 3 stig og þessi óþægindi geti einungis verið rakin til slyssins í harðfiskvinnslunni.
Taldi konan óumdeilt að hún hefði orðið fyrir líkamstjóni í vinnuslysinu en hún hafi ekki fengið vitneskju um taugaskaða fyrr en tveimur árum seinna. Hún ætti rétt á bótum frá vinnuveitanda sínum samkvæmt kjarasamningi. Framkvæmdastjóri harðfiskvinnslunnar hafi vitað af tjóninu og honum borið að tilkynna það til tryggingafélagsins, Sjóvá almennra, eða leiðbeina konunni þar um. Því hafi hins vegar ekki verið sinnt og því beri fyrirtækið tjónaábyrgð.
Harðfiskvinnslan krafðist hins vegar sýknu á þeim grundvelli að engin tilkynningarskylda hvíli á henni. Til þess þurfi saknæma háttsemi að fella bótaábyrgð beint á fyrirtækið. Engin réttarheimild sé til staðar til að skylda vinnustað að tilkynna vinnuslys fyrir hönd starfsmanns.
Einungis sé skylt að tilkynna vinnuslys til Vinnueftirlitsins en þess hafi ekki verið þörf þar sem konan hafi ekki misst dag úr vinnu vegna slyssins og ekkert hafi bent til varanlegs heilsutjóns. Þá dregur fyrirtækið í efa að konan hafi orðið fyrir tjóni. Fyrir því liggi einungis einhliða matsgerð með takmörkuðu sönnunargildi.
Dómari taldi engan ágreining um að slysið hefði átt sér stað hins vegar hefði ekkert gefið tilefni til að ætla að það hefði alvarlegar afleiðingar eða kallað á sérstaka upplýsingagjöf til hennar um sjúkratryggingar.
„Líkt og fram er komið telst ósannað að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi hvað varðar upplýsingagjöf til stefnanda um slysatryggingu og/eða skort á tilkynningu til tryggingafélags um slysið,“ segir í niðurstöðum dómsins. Ósannað er að harðfinnskvinnslan beri bótaskyldu í málinu og er hún því sýknuð af kröfunum. Var konunni gert að greiða tæpa 1,5 milljón krónur í málskostnað.