fbpx
Föstudagur 27.september 2024
Fréttir

Fær ekki að búa á Íslandi með foreldrum sínum og systur – „Það hefur verið mikið grátið síðustu daga”

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 27. september 2024 09:00

Gandi Aboukhalil El Halabi,

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það hefur verið mikið grátið síðustu daga. Móðir mín er óhuggandi enda viljum við fjölskyldan vera saman og byggja upp líf okkar hér í þessu frábæra landi,“ segir Gandi Aboukhalil El Halabi, þrítugur maður sem er ríkisborgari tveggja landa í mikilli upplausn, Sýrlands og Venesúela. Honum verður vísað úr landi á þriðjudaginn í næstu viku en foreldrar hans og yngri systir hafa fengið dvalarleyfi hérlendis.

Þjóðflokkur sem á undir högg að sækja

Fjölskyldan kom til landsins undir lok ársins 2022 en Gandi rúmum mánuði á eftir hinum. Fjölskyldan var búsett í Sýrlandi, nánar tiltekið borginni Sweida í Suður-Sýrlandi, Móðir Gandi er hins vegar borin og barnfædd í Venesúela en yfirgaf heimaland sitt vegna ástandsins þar.

Fjölskyldan tilheyrir þjóðflokki drúsa í Sýrlandi, sem eru hvorki kristnir né múslimar. Drúsar eiga verulega undir högg að sækja í Sýrlandi og sérstaklega eftir sýrlensku borgarastyrjöldina, sem tæknilega geisar enn.

Styrjöldin gerði það að verkum að lög og reglur gufuðu upp og einstakir ættbálkar tóku völdin víða í landinu og níddust á minnihlutahópum eins og Drúsum.

Gandi og fjölskylda hans sáu sér þann kost einan að flýja heimaland sitt. Þar sem þau höfðu fengið þær upplýsingar að það væri vænlegra til árangurs þá framvísuðu þau öll venesúelskum vegabréfum sínum við komuna til landsins. Þrjú þeirra fengu dvalarleyfi hérlendis en aðeins Gandi fékk synjun.

Fékk umsvifalaust vinnu á Íslandi

Gandi er menntaður arkitekt og á meðan mál hans velktist um í kerfinu var harðákveðinn í því að hann ætlaði ekki að þiggja neina ölmusu frá íslenskum yfirvöldum. Hann var búinn að vera hér í skamma stund þegar hann var búinn að finna sér vinnu í útibúi Te & Kaffi og fékk tímabundna kennitölu og leyfi til sex mánaða til að stunda þá vinnu.

Gandi blómstraði í vinnunni enda elskar hann að vera innan um fólk. Var hann meðal annars gerður að vaktstjóra í útibú Te & Kaffi á Suðurlandsbraut og síðar í útibú fyrirtækisins í Borgartúni eftir að leyfi hans var framlengt í sex mánuði.

„Ég hef alltaf elskað að vinna og var meðal annars í þremur störfum heima í Sýrlandi til að framfleyta fjölskyldunni,” segir Gandi. Hann segir hlægjandi að hann sé líklega ofvirkur enda er hann einnig afar áhugasamur um líkamsrækt og næringu. Hann heldur úti Instagram-síðu tileinkaða líkamsræktinni og er þar með um 5 þúsund fylgjendur.

„Ég fæ mikið af viðskiptahugmyndum og eitt af því sem mig myndi langa að gera væri að framleiða heilsufæði fyrir Íslendinga, með mið-austurlensku ívafi auðvitað,” segir Gandi, sem einnig hefur reynslu sem grafískur hönnuður í heimalandinu.

Rangar upplýsingar frá Útlendingastofnun

Eftir eitt ár í vinnu hjá Te & Kaffi, þaðan sem hann fékk úrvals meðmæli, gat Gandi ekki fengið áframhaldandi starf því hann fékk sína fyrstu synjun varðandi dvalarleyfið. „Það var mikið áfall enda bjóst ég við því að fjölskyldan mín fengi að vera saman hér á Íslandi,” segir Gandi.

Foreldrar hans hafa komið sér ágætlega fyrir hér á landi, móðir hans starfar á leikskóla hérlendis og systir hans stundar nám í menntaskóla.

Í kjölfar synjunarinnar fékk Gandi þær upplýsingar frá starfsmanni Útlendingastofnunar að hann gæti farið af landi brott í þrjá mánuði og komið svo til baka og sótt aftur um hæli sem sem sýrlenskur ríkisborgari. Gandi fór því af landi brott, heimsótti meðal annars skyldmenni sem flúið hafa til Dubai, og kom síðan aftur og sótti um hæli þremur mánuðum síðar.

Upplýsingar ÚTL reyndust hins vegar ekki réttar. Honum var umsvifalaust tjáð að hann hefði áður sótt um hæli hérlendis með venesúelsku vegabréfi og því yrði honum umsvifalaust vísað úr landi. Hann segist óttast um framtíð sína en förinni verður heitið til Sýrlands í næstu viku og þar bíður hans óöruggt ástand.

„Fjölskylda mín er í miklu uppnámi enda geta liðið mörg ár þangað til ég sé þau aftur og þau vita hvaða hættur bíða mín. Okkur finnst afar sárt og ómannúðlegt að við fáum ekki að vera saman. Persónulega er ég að sjálfsögðu mjög leiður. Þetta er niðurlægjandi reynsla og ég er líka fullviss um að kraftar mínir munu nýtast vel hér á landi. Ég er vel menntaður og tala góða ensku, arabísku og spænsku. Ég hef fundið fullt af hentugum störfum í veitinga- og ferðaþjónustugeiranum, þar sem er mikill skortur af starfskröftum, en ég hef ekki mátt vinna út af dvalarleyfissynjuninni,” segir Gandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Reykjavíkurflugvöllur – Hávaði aldrei mældur og kortlagning á mögulegu flugslysi ekki til staðar

Reykjavíkurflugvöllur – Hávaði aldrei mældur og kortlagning á mögulegu flugslysi ekki til staðar
Fréttir
Í gær

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur lagði fram kæru á Sólon þremur dögum eftir andlát hans

Vilhjálmur lagði fram kæru á Sólon þremur dögum eftir andlát hans
Fréttir
Í gær

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco
Fréttir
Í gær

Fyrrverandi eiginkona Páls segir Arnar og Þóru hafa tekið við síma hans

Fyrrverandi eiginkona Páls segir Arnar og Þóru hafa tekið við síma hans
Fréttir
Í gær

Sögð selja þýfi óáreitt úr félagslegri íbúð á Hringbraut

Sögð selja þýfi óáreitt úr félagslegri íbúð á Hringbraut
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lést í alvarlegu umferðarslysi við Fossá

Lést í alvarlegu umferðarslysi við Fossá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“