Veitingastaðurinn Fishhouse í Grindavík og Sjóvá-Almennar voru sýknuð í dag með dómi Landsréttar af kröfu karlmanns sem hlaut líkamstjón vegna líkamsárásar starfsmanns á staðnum 14. júlí 2019.
Sneri dómurinn þannig við dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 18. apríl síðastliðinn þar sem viðurkennd var óskipt skaðabótaskylda fyrirtækjanna auk starfsmannsins vegna þess líkamstjóns sem karlmaðurinn varð fyrir í líkamsárásinni.
Sjá einnig: Veitingastaður í Grindavík skaðabótaskyldur vegna líkamsárásar starfsmanns á drukkinn gest
Starfsmaðurinn hlaut 30 daga skilorðsbundinn dóm í mars 2021 og jafnframt gert að greiða karlmanninum 546.317 kr. Í miskabætur og vegna sjúkrakostnaðar auk nánar tilgreindra vaxta. Þeim dómi var ekki áfrýjað.
Ágreiningur aðila fyrir Landsrétti lýtur að því hvort áfrýjendum, veitingastaðnum og tryggingafélaginu, verði jafnframt gert að sæta ábyrgð á tjóni karlmannsins.
Eins og rakið er í dómi Landsréttar er óumdeilt að karlmaðurinn varð fyrir líkamstjóni í árásinni.
Sýknukrafa áfrýjenda, veitingastaðarins og tryggingafélagsins, byggðist á því að sá fyrri beri hvorki skaðabótaábyrgð á tjóni karlmannsins á grundvelli sakarreglunnar né reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Sögðu áfrýjendur að líkamsárás starfsmannsins hafi verið svo fjarri eðlilegum starfskyldum hans að líkamstjónið sem af henni leiddi falli utan gildissviðs reglunnar. Tryggingafélagið byggði einnig sýknukröfu sína á því að sú ábyrgðartrygging sem þegar atvik málsins áttu sér stað taki ekki til tjóns þess sem karlmaðurinn varð fyrir í líkamsárásinni.
Skilyrði þess að vinnuveitandi verði dæmdur skaðabótaskyldur vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanns er að tjóni hafi verið valdið í tengslum við framkvæmd þeirra starfa sem starfsmaðurinn átti að inna af hendi segir í dómi Landsréttar.
„Liggur fyrir að þegar atvik málsins áttu sér stað sinnti starfsmaðurinn sem um ræðir almennum afgreiðslustörfum á veitingastað áfrýjanda. Almennt verður að leggja til grundvallar að líkamleg valdbeiting sé víðs fjarri þeim starfsskyldum sem felast í slíkum þjónustustörfum. Þá er og til þess að líta að atlaga starfsmannsins átti sér stað í kjölfar þess að stefndi sló fyrirvaralaust til hans.
Viðbrögð starfsmannsins voru þannig í beinu framhaldi af því að stefndi veittist að honum persónulega og tengdust því ekki því afgreiðslustarfi sem hann sinnti. Er af þeim sökum ekki unnt að fallast á að sú líkamsárás sem starfsmaðurinn var síðar sakfelldur fyrir í héraðsdómi hafi verið í slíkum tengslum við starf hans að rétt sé að fella jafnframt bótaábyrgð á áfrýjanda sem vinnuveitanda hans vegna líkamstjóns stefnda.“
Karlmaðurinn hélt því fram að starfsmaðurinn hefði einnig starfað sem dyravörður þetta kvöld, en Landsréttur hafnaði þeirri málsástæðu.
Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti var látinn falla niður og allur gjafsóknarkostnaður karlmannsins fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans.